Pétur Arnar Kristinsson er fæddur á því herrans ári 1974. Hefur hann lengi fengist við lagasmíðar en það var ekki fyrr en lagið hans Aldrei segja aldrei komst inn í Söngvakeppni Sjónvarpsins 2012 að lag eftir hann var gefið út. Enn liðu svo nokkur ár þar til næstu tvö lög voru tekin upp árið 2018. Svo komu lögin í hollum og nú er hann að leggja lokahönd á síðustu fimm lögin á sína fyrstu breiðskífu. Flytjendur eru, auk höfundar, ekki af verri endanum en það eru þau Geir Ólafsson, Íris Lind Verudóttir og Sigurður Ingimarsson.
Fylgjast má með ferlinu og tónlist hans á Facebook.
Hefur Pétur nú blásið til söfnunar fyrir útgáfunni hjá Karolina Fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég hef lengi átt mér þennan draum en löngunin til að gera úr lögunum eitthvað áþreifanlegt eins og geisladisk hefur ágerst eftir með hverju lagi sem ratar í stúdíó, þannig að nú um áramótin ákvað ég að láta slag standa og setja í upptökuferli þessi lög sem vantaði fyrir plötu,“ svarar Pétur. Söngvakeppnin 2012 hafi markað upphafið. „Þar fékk ég bakteríuna svo að segja, þó ég hafi annars verið búinn að vera að taka upp lagaskissur heima hjá mér um árabil.
Svo mörgum árum seinna kom að því lagi sem mér fannst ég bara verða að koma frá mér, Vonarstjarna og þá var svo heppinn að finna Snorra Snorrason, upptökustjóra, Ingólf Magnússon bassaleikara og Þorvald Kára Ingveldarson í verkið og komu tvö lög út árið 2018. Hefur þetta samstarf haldist farsællega síðan, er ráðist var í töluvert stærri skammt árið 2020 og loks þessi lög sem eru nú að verða klár. Bakraddir hef ég fundið í félögum mínum í Rokkkór Íslands.“
Um annan hljóðfæraleik en bassa og trommur og um útsetningar hef Pétur séð sjálfur, þótt þeir Ingólfur og Þorvaldur hafi að mestu „leikið lausum hala á bassann og trommur, einungis með lauslegri hliðsjón af mínum skissum: Er ég afskaplega ánægður með útkomuna!“
Er eitthvað þema eða rauður þráður í verkefninu?
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur. Tvö laganna séu „instrumental”.
„Ætli þráðinn sé ekki að finna í textunum? Þeir eiga það til að innihalda hvatningarorð og hughreystingar sem endurspeglast í titlunum; Aldrei segja aldrei, Gengur betur næst, Fyrir þér, Syngdu með,“ segir hann og tekur extadæmi: „Komdu út í strauminn, taktu tauminn, vertu vinur með; hvort sem ertu´ í leiknum lífsins biskup, kóngur eða peð.. „
Þá segir hann textana vera hugleiðingar um lífið og „þetta að vera til og hvernig við notum tímann okkar hér á jörð. Lagið Tíminn er dæmi það.“
Fyrsta lagið hafi ef til vill verið undantekningin, hvað stíl varðar, en trommuleikarinn lýsti því sem „tribal” rokki. „Ég hef það fyrst, svo að fólk gangi ekki að einhverjum stíl sem gefnum hjá mér: Þetta er jú bland í poka.“
Pétur hefur í nokkrum tilfellum tekið upp enskar útgáfu samhliða hinum íslensku en á plötunni er einungis sungið á íslensku.
Stiklur af lögunum 12 má hlusta á hér.
Eitthvað að lokum sem þú vilt að komi fram?
„Tja, Þar sem sumarið er að hlaupa frá okkur ákvað ég að taka smá forskot á sæluna og gefa instrumentalinn Fössari, sem verður á plötunni, út í enskri útgáfu, Friday, ásamt myndbandi og örlitlum bakraddasöng.“
Kom lagið út í öllum helstu netverslunum (Spotify, Amazon o.fl.) síðasta föstudag. „Og platan mun svo -ef söfnunarmarkmið næst- fylgja snemma í september,“ segir Pétur.
Hér má kynna sér og styrkja verkefnið á Karolina Fund.