Hafdís Bára Óskarsdóttir er 32 ára Húnvetningur með mikla réttlætiskennd. Hún ólst upp á Steiná í Svartárdal þar sem dýr og þá helst hestar og hundar voru hennar bestu vinir. Með aldrinum kom sú ástríða að vilja aðstoða alla sem þurftu aðstoð og þá sérstaklega tengt andlegri líðan og réttindum.
Frá því í framhaldsskóla hefur það verið mikill draumur hjá Hafdísi að nýta dýr sem meðferðarúrræði, sérstaklega þar sem henni finnst vanta mun fleiri úrræði fyrir fólk til þess að vinna með sálrænan vanda. Safnað verður á Karolina Fund fyrir bættum aðbúnaði í hesthúsi, reiðbúnaði fyrir hesta og skjólstæðinga, sem og námskeiðsgjaldi fyrir vefsíðugerð.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég hef frá því að ég man eftir mér haft gríðarlegan mikinn áhuga á því að aðstoða fólk á einn eða annan hátt. Með árunum þróaðist þetta í að vilja veita öðrum stuðning í sínum andlegum erfiðleikum. Ég sjálf leitaði mikið til dýra fyrir slíkan stuðning sem það gerði að verkum að áhugi minn að nýta dýr í meðferðarúrræði jókst með árunum. Sérstaklega þegar ég fór að taka meira eftir því úrræðaleysi sem er í samfélaginu gagnvart fólki með andlegan vanda.
Ég velti því oft fyrir mér þeirri hugsun, af hverju ekki að reyna að koma á fót geðheilsumiðstöð með ólíkar meðferðir? Meðferðir sem hafa sýnt fram á góðan árangur með fólki en eru jafnvel ekki á allra vörum í daglegu lífi. Ég fór þá að leita eftir því að komast í gegnum EAGALA-samtökin í Bandaríkjunum og fór á mitt fyrsta námskeið hjá þeim haustið 2019 og þarf að viðhalda því skírteini með reglulegri endurmenntun,“ segir Hafdís Bára.
Segðu okkur frá þema verkefnisins
Meginþema verkefnisins eru hestarnir sem verða að fagaðilum í ferlinu, að sögn Hafdísar Báru. „Fólk veltir því örugglega fyrir sér, af hverju hestar? Hestar eru einstaklega næmir og eiga mjög auðvelt með að skynja fólk. Þeir bjóða upp á öruggt umhverfi fyrir einstaklinga til þess að vinna úr sínum vanda og sigrast á áskorunum. Hestarnir spegla hvernig einstaklingum líður og það sem gerist er að hestarnir bregðast við eftir því hvað þeir skynja. Það gefur okkur miklar upplýsingar til að vinna með.
Mikið af því sem við erum að gera í virkninni er að búa til ákveðna framsetningu á því hvað er að gerast í lífi fólks. Einstaklingarnir hafa þá tækifæri til þess að fara í gegnum það, vinna með hestunum, læra ákveðin mynstur og finna nýjar leiðir til þess að styrkja og efla líf sitt. Meðferðirnar eru skjólstæðingsmiðaðar og er lögð mikil áhersla á að einstaklingarnir hafi bestu lausnirnar fyrir sjálfa sig þegar þeir fá tækifærið til þess að uppgötva þær,“ segir hún.
Hafdís Bára telur að á tímum andlegra erfiðleika þurfum við að opna hugann meira fyrir fjölbreyttari meðferðum til að vinna með andlega heilsu og þá sérstaklega stjórnvöld og sveitarfélög. „Við þurfum að hjálpast að til að gera kerfið og meðferðirnar aðgengilegri fyrir almenning. Enginn á að þurfa að bíða í heilt ár eða lengur eftir meðferð því þá getur það jafnvel verið orðið of seint. Fólk á að geta haft val um sínar meðferðir og fundið út hvað hentar þeim. Það er eitt af því sem Vonarljós vill stefna á, að geta boðið upp á annars konar meðferðir fyrir þá sem hafa jafnvel ekki fundið það sem hentar þeim. Unnið verður með öðrum frábærum fagaðilum og búið til heildrænt meðferðarsamfélag.“
Hér er hægt að styrkja söfnunina.