Halldóra Björgvinsdóttir er 22 ára áhugakona um fatahönnun. Hún vill gefa gömlum og notuðum fötum nýjan tilgang með því að breyta þeim í ný föt. Fataiðnaðurinn er ein mest mengandi atvinnugrein heims. Jarðarbúar fleygja um 13 milljónum tonna af fatnaði á hverju ári og þess vegna vill Halldóra leggja sitt af mörkum í að bæta umhverfið og endurvinna gömul föt sem fólk hefur losað sig við.
Hún hefur nú stofnað Karolina fund verkefni. Markmiðið er að stofna netverslun með fötum sem hún hefur saumað en nú safnar hún fyrir betri saumabúnaði.
Hún segist ekki þola að horfa á ónotuð föt uppi í hillu og að hún gæti alltaf ímyndað sér eitthvað nýtt og flottara sem væri hægt að breyta þeim í. „Ég fókusa á föt sem fara fólki vel, ég er ekki mikið fyrir föt sem hanga utan á mér eins og lufsur.“
Því sé þemað í vinnu hennar að það sé engin flík eins, enda er enginn fjöldaframleiðsla í gangi hjá Halldóru. „Hver og ein flík er einstök af því að ég geri hverja og eina flík úr öðrum flíkum sem ég fæ gefins og hef takmarkað magn af hverju og einu efni. Það er það sem gerir þetta verkefni mjög skapandi og skemmtilegt.“