Erlendur Eiríksson er menntaður matreiðslumeistari frá Hótel- og Veitingaskóla Íslands, leikari frá Arts Educational Schools í London og með meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst. Erlendur hefur starfað á fjölda veitingahúsa bæði sem stjórnandi og matreiðslumaður hér á landi og erlendis. Séð um kennslu í matreiðslu hjá Salt eldhúsi og tekur reglulega námskeið til að viðhalda ferskleika og frumsköpun. Hann starfaði sem yfirmatreiðslumeistari og framleiðslustjóri skyrgerðar hjá Skyrgerðinni í Hveragerði í um þrjú ár. Erlendur hefur einnig komið að uppsetningum af verkum leiklistar hópsins Vesturports, unnið í kvikmyndum, sjónvarpi, hljóðvarpi og á sviði sem leikari. Nú safnar hann fyrir því á Karolina Fund að geta komið vistvænni framleiðslu á hágæða íslenskum grænkera ostum með jarðvarma á koppinn í atvinnuhúsnæði í Hveragerði.
Erlendur segir hugmyndina að því að prófa þessa leið hafa sprottið upp úr því að hann og samstarfsaðilar hans hafi verið að leita að atvinnuhúsnæði sem hentaði undir ostagerðina. „Við hjónin vorum að selja íbúð sem við áttum hlut í og ákváðum að nota fjármagnið til þess að kaupa atvinnuhúsnæði. Þegar við fórum að skoða komu nokkur húsnæði til greina en staðan breyttist hratt þegar við sáum húsnæðið okkar. Framtíðarhúsnæði fyrir ostagerðina. Við fórum að hugsa leiðir til þess að ná að fjármagna það húsnæði og af hverju ekki að nýta okkur hópfjármögnun? Eiginkona mín og framkvæmdastjóri Livefood ehf, hún Fjóla Einarsdóttir, fór strax í málið og innan tveggja daga var síðan komin í loftið. Í því ferli var magnað hversu mikill stuðningur og hvatning kom frá starfsmönnum Karolina Fund.“
Sérstaka framleiðslunnar verða kartöfluostar. „Þá osta er ég búinn að þróa í þó nokkuð langan tíma þar sem áherslan var lögð á að geta framleitt plöntuost úr íslensku hráefni í heimabyggð. Þessir ostar eru í grunninn framleiddir úr íslenskum kartöflum og unnir með mjólk sem við framleiðum úr íslenskum höfrum. Breytilegt er hvað við setjum í þessa osta þar sem notaðar eru árstíðabundnar vörur til að gera sem skemmtilegustu brögð hverju sinni. Þrátt fyrir að þróunarferlið og uppbygging nýsköpunarfyrirtækis okkar hafi tekið tíma og alla okkar auka orku þá erum við svo hrikaleg stolt af því að vera loksins komin á þann stað að fjárfesta í atvinnuhúsnæði og sjáum ljósið í enda ganganna.“
Staðan á markaði hér á landi er sú að ekki er framleiðsla á þessari vöru hér innanlands, þ.e. plöntuostum þar sem uppistaðan eru kartöflur og haframjólk, og skapar það sína sérstöðu. „Það er því mikilvægt að hefja framleiðslu hér á landi eins fljótt og auðið er. Grænkera matargerð fer hratt vaxandi út um allan heim og mun halda áfram að þróast á ógnarhraða. Áhugi og þörf á að geta sinnt ört stækkandi markaði með afurðir úr plönturíkinu er brýn og hefur verkefnastjóri verkefnisins orðið var við þá þróun í gegnum starf sitt í atvinnueldhúsum landsins. Grænkera ostagerð er ný hér á landi en hefur tekið mikið stökk í löndunum í kringum okkur. Samkvæmt markaðsrannsóknum var Evrópa með mestu markaðshlutdeildina eða 43%. Búist er við að heimsmarkaðurinn fyrir grænkera osta muni ná markaðsvirði 3,9 milljarða dollara í lok árs 2024, samanborið við 2,1 milljarð dollara árið 2016 Innflutningur á grænkera ostum er alger og því kalli ætlar Livefood að svara. Við Íslendingar höfum alla burði til þess að vera leiðandi á þessu sviði. Með því að framleiða vöru, fyrir þann markað sem ekki vill eða getur notað hefðbundna osta, náum við að stuðla að breiðari og fjölbreyttara vöruúrvali fyrir alla. Með það að markmiði að framleiða úr íslensku hráefni og að stuðla að sem minnsta kolefnisfótspori erum við að bæta allt okkar umhverfi. Að auki með því að framleiða hágæða vöru með áherslu á það hugvit og vinnuframlag sem er til staðar hér í okkar nærumhverfi á Suðurlandi mun þetta verkefni verða lyftistöng og atvinnuskapandi, til lengri tíma.
Erlendur bendir á að grænkerafæði njóti nú sívaxandi vinsælda, sérstaklega á meðal yngri kynslóða. „Fyrir því eru meðal annars eftirfarandi ástæður: Í fyrsta lagi hefur fólk einlægan áhuga á því að minnka kolefnisspor sitt og vistspor almennt. Með því að nýta betur innlenda framleiðslu og skapa úr henni verðmæti er dregið úr orkufrekum millilandaflutningum á hráefni. Með því að nýta innlent hráefni má að auki sleppa við innflutning á algengum hráefnum til framleiðslu grænkerafæðis. Í öðru lagi hafa stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar og aðrar þrýst mjög á um sjálfbæra þróun í heiminum og að við eigum að skila plánetunni til næstu kynslóða í jafngóðu eða betra ásigkomulagi en við tókum við henni. Mikið er í húfi og teljum við að verkefni okkar stuðli tvímælalaust að slíkri þróun. Í þriðja lagi viljum við auka valfrelsi neytandans. Íslendingar hafa sýnt það og sannað að þeir taka fegins hendi við auknu úrvali.
Hér er hægt að taka þátt í söfnuninni og versla sér grænkera osta.