Kvikmyndagerðarmaðurinn og ljósmyndarinn Gaui H hefur verið að mynda síðan að hann var níu ára gamall og fór í að gera tónlistarmyndbönd og heimildarmyndir fyrir fjórum árum síðan. Hann er búsettur í Færeyjum ásamt unnustu sinni Maritu, og eiga þau saman fyrirtækið Faroe Ice productions.
Hann vinnur nú að gerð heimildarmyndar um ferðir Fjölnis Geirs Bragasonar, Fjölnis Tattú, til Færeyja í tengslum við FO Tattfest húðflúrhátíðina sem kom á laggirnar þar í landi. Fjölnir lést í desember 2021 aðeins 56 ára að aldri.
Þema verkefnisins er einfalt: ferðalag Fjölnis í gegnum lífið. „Það var á pörtum ansi skrautlegt og alveg magnað hvað hann tók sér fyrir hendur. Mig hlakkar mikið til að setjast niður með fólki sem var honum næst og rifja upp sögur og festa þær á filmu!“
Gaui H segir að hann og Fjölnir hafi verið afar nánir vinir og frá árinu 2018, þar til Fjölnir lést í lok síðasta árs, hafi þeir eytt ómældum tíma saman í að bralla og plana. „Hann kynnti mig fyrir núverandi unnustu minni og eigum við saman lítinn gaur sem að Fjölni hlakkaði mikið til að hitta. En það tókst ekki þar sem að Fjölnir lést fljótlega eftir fæðingu hans. En ég get sýnt syni mínum þessa mynd þegar að hann verður eldri og sagt honum sögur af þessum mikla manni sem að gerði svo mikið fyrir mig og fleiri.
Mér finnst ég ekki geta hvílst fyrr en að þessi mynd er orðin að veruleika, ekki bara fyrir mig heldur alla sem þekktu hann og elskuðu. Og það voru ansi margir.“