Gunnella Hólmarsdóttir er leikkona og leikstjóri. Hún er gift, tveggja barna móðir sem hefur í vetur stundað meistaranám í sviðslistum við Listaháskóla Íslands. Þar hefur hún verið að rannsaka áhrif matreiðslubóka á taugaáföll kvenna. Hún hefur nú skrifað leikverkið Hvað ef sósan klikkar?, út frá þeirri rannsókn. Verkið er sýnt um þessar mundir í Listaháskóla Íslands en fer síðan í vor á svið í Tjarnarbíó.
Gunnella segir hugmyndina að verkefninu hafa kviknað þegar hún sótti um áðurnefnt meistaranám. Þá þurfti hún að leggja fram rannsóknarspurningu í umsókninni. „Ég man nú ekki nákvæmlega hver sú spurning var en ég man að mig langaði að rannsaka hvað það væri sem væri valdur af því að margar konur í minni fjölskyldu hafi fengið svo kallað taugaáfall og þar með talin ég sjálf.
Ég byrjaði önnina með þá spurningu í huga en þegar ég fór að vinna og grúska, lesa og skrifa fóru að koma upp spurningar. Ég fór að skoða hvað það væri eiginlega í mínu umhverfi sem væri valdur að öllu þessu álagi. Við vitum alveg að samfélagsmiðlar eru að hafa slæm áhrif á sjálfsmynd okkar og sérstaklega ungra kvenna. Við vitum að auglýsingar, sjónvarp og popp kúltúr inn hefur haft áhrif á okkur en þegar ég fór að kafa dýpra fór ég að hugsa hvað væri raunverulega að hafa áhrif á mig. Eða hvað væri svona í mínu umhverfi sem fengi mig til að stressast og fyllast kvíða og fór ég þá að leiða hugann að matreiðslubókum og hvaða áhrif þær hafa haft á mig. Ég ræddi mikið við ömmu mína sem hefur safnað matreiðslubókum nánast allt sitt líf og hefur unun af því að elda. Ég fékk svo leyfi hjá henni til að fara með hana í sumarbústað þar sem við dvöldum í 4 daga og ég tók upp öll okkar samtöl. Þau samtöl voru algjört konfekt fyrir verkið og urðu því hluti af verkinu.“
Að sögn Gunnelu er verkið heimildarverk. Blanda af spuna heimildum og fyrirfram skrifuðum senum. „Þegar áhorfandinn gengur inn í salinn er hann að koma í sjónvarpssal þar sem er að hefjast bein útsending af matreiðsluþættinum Hvað ef sósan klikkar? Í þessum þætti þarf ég, þáttastjórnandinn að stýra upptöku, skemmta áhorfendum, sjá um auglýsingar og elda allan matinn frá grunni, og það með klukkuna tifandi yfir mér!
Hér er hægt að skoða söfnunina og taka þátt í að koma því á fjalirnar.