Svava Björk Ólafsdóttir sérfræðingur í nýsköpun, Ninna Margrét Þórarinsdóttir barnamenningarhönnuður og Eva Rún Þorgeirsdóttir rithöfundur standa á bak við verkefnið Hugmyndasmiðir en þær safna nú fyrir fjármögnun þess á Karolina Fund. Verkefninu er ætlað að efla sköpunargleði og frumkvöðlakraft barna á skemmtilegan hátt.
Hugmyndasmiður verkefnisins er Svava Björk en hún hefur yfir 8 ára reynslu af því að fóstra frumkvöðla á Íslandi í gegnum viðskiptahraðla, lausnamót, þjálfun við kynningar og ráðgjöf.
Í dag er aðalfókusinn hennar á að styðja við stuðningsumhverfið í gegnum fyrirtækið hennar RATA. Hún hefur meðal annars stýrt verkefnum á borð við Ratsjáin, Matsjáin, sinnt kennslu í nýsköpun í Háskólanum í Reykjavík og komið að stofnun og stýrt verkefnum Norðanáttar sem er nýsköpunarhreyfing á Norðurlandi. Í gegnum verkefnið Hacking Hekla hefur hún ferðast um landið og búið til vettvang þar sem nýjar hugmyndir verða til og einnig haldið utanum leiðarvísi um vistkerfi nýsköpunar.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Verkefnið varð til á vinnustofu um vistkerfi nýsköpunar á landsbyggðunum á Rifi í ágúst 2021. Svava Björk, sérfræðingur í nýsköpun og stofnandi RATA sat vinnustofuna.
„Það áttu sér stað mjög góðar umræður um vistkerfið og hvað þyrfti að gera til að styðja við frumkvöðla sem búa fyrir utan höfuðborgarsvæðið sem oft er talinn suðupottur nýsköpunarumhverfisins. Við fórum svo langt í umræðunum að ræða um sjálfsmynd ungu kynslóðarinnar og fundum að það þyrfti á einhvern hátt að efla frumkvöðulinn frá unga aldri, byrja strax að ýta undir skapandi og lausnamiðaða hugsun, sama hvar hann býr.
Út frá þessum vangaveltum og umræðu um stöðu menntunnar í nýsköpun í grunnskólum varð verkefnið Hugmyndasmiðir til. Við eigum ótrúlega flottar fyrirmyndir frumkvöðla um allt land og fyrsta skrefið er að draga þær fram í dagsljósið og setja fram á skemmtilegan hátt fyrir krakka. Næsta skref verður svo að efla krakkana í gegnum fræðslu, verkefnavinnu og hugmyndasamkeppni,“ segir hún.
Segðu okkur frá þema verkefnisins
Verkefnið samanstendur af eftirfarandi þáttum:
- Vefsíðan hugmyndasmidir.is – Síða með fræðsluefni um nýsköpun og átta myndböndum með viðtölum við íslenska frumkvöðla.
- Bókin Hugmyndasmiðir – Bók fyrir krakka um íslenska frumkvöðla. Viðtölin við frumkvöðlana eru sett í söguform og litríkar teikningar. Bókinni fylgir vinnuhefti þar sem krakkar geta unnið sínar eigin hugmyndir. Bókaútgáfan Bókabeitan gefur bókina út.
- Nýsköpunarkeppni fyrir 1.-4. bekk – Árlega geta krakkar sent inn stutt myndbönd með eigin hugmyndum og tekið þátt í Nýsköpunarkeppni Hugmyndasmiða. Hluti ágóða seldra bóka, ásamt framlögum fyrirtækja, rennur í sérstakan hugmyndasjóð sem deilir út verðlaunum til sigurvegaranna.
Tökur standa yfir þessa dagana og hefur teymið meðal annars heimsótt vísindakonu á Norðurlandi vestra, yngsta æðardúnsbónda landsins á Norðurlandi vestra, þara frumkvöðul á Reykjanesi og hjón sem fá ekki nóg af sterkum sósum á Austurlandi.
Eitthvað sérstakt sem þú vilt að komi fram um þitt verkefni?
„Krakkar eru hugmyndasmiðir og framtíðin er þeirra. Heimurinn breytist á ógnarhraða og áskoranirnar sem mannkynið stendur frammi fyrir virðast stærri með hverju árinu. Það er nauðsynlegt ekki seinna en strax að skapa umhverfi þar sem krakkar vaxa úr grasi sem öflugir frumkvöðlar sem skapa lausnir við áskorunum framtíðar. Hvernig getum við þjálfað lausnamiðaða hugsun, sköpunarkraft, fókus og þrautseigju sem eru einkenni frumkvöðla og annarra brautryðjenda? Við viljum reyna að skapa vettvang sem gerir einmitt það,“ segir Svava Björk.
Hægt er að styrkja verkefnið hér.