Kristín Linda Hjartardóttir geðhjúkrunarfræðingur, í samvinnu við Elínu Öglu þjóðmenningarbónda hafa ákveðið að reisa „gullfallegt, töfrum fyllt, mongólskt hirðingjatjald“ á höfuðborgarsvæðinu.
Þær safna nú fyrir verkefninu Þetta Gimli – þjóðmenningarbýli á Karolina Fund.
Hvað er Þetta Gimli?
„Það er staður fyrir fólk að koma á viðburði, vinnustofur og námskeið sem öll miða að því að auka á tengsl og samhljóm, okkar á milli og á milli okkar og náttúrunnar. Tjaldið er svo fallegt að bara með því að koma og vera þar þá færist yfir mann ró og þakklæti. Nafnið kemur frá Elínu Öglu en hún reisti tjaldið fyrst upp í Árneshreppi þegar hún bjó norður í Trékyllisvík. Gimli vísar í goðafræðina, þegar ragnarök ganga yfir og heimurinn eins og við þekkjum hann er að enda. Þá var Gimli eina skjólið fyrir eldinum allt um kring.
Gimli var líka nafnið sem Íslendingar gáfu bæ sem þeir byggðu í Kanada seint á 19. öld. „Þetta“ Gimli vísar til tjaldsins, hérna, núna. Skjól fyrir þá sem vilja, með von um að flest okkar eigi skjól einhvers staðar. Við vonum að Þetta Gimli geti verið skjól fyrir það sem þarf skjól í nútímanum, þar sem við getum aðeins hægt á okkur og átt tíma fyrir samræður, tengingu, íhugun, og jafnvel veisluhöld,“ segir Kristín.
Hvernig kom hugmyndin til?
„Við Elín Agla höfum lengi verið að bera saman bækur okkar um alls konar hugleiðingar varðandi hvað það er sem hjálpar okkur í svona þessu daglega streði sem lífið oft getur verið. En líka hvað það er sem gefur okkur gleði og hefur raunverulegt gildi fyrir okkur. Ég flutti til Bandaríkjanna 2009 og á tímabili var ég í Minneapolis og hún norður í Árneshreppi. Á þessum tíma vorum við oft að ræða hversu samfélagið í kringum okkur og samband okkar við þetta samfélag væri mikilvægt. Elín bjó í þorpi þar sem tengsl og hlutverk voru svo skýr. Ég bjó í borg og var fyrstu árin í sterku samfélagi með öðrum íslendingum en á þessum tíma höfðu þau flest flutt aftur heim. Því varð ég að byggja upp mitt eigið tengslanet hérna úti.
Í öðru lagi vorum við mikið að tala um tengsl okkar við náttúruna. Það hefur verið gangandi grín hvað ég er lítið náttúrubarn, og kann vel við mig í steypunni. Ég er alin upp út á landi og það var ekki fyrr en ég flutti í Bandaríska miðvestrið, flatlendið mikla, sem ég fór að upplifa það sjálf að umhverfið, náttúran, talar við eitthvað innra með okkur. Og fyrir útlendinginn sem hefur alltaf haft fjall á aðra höndina og hafið á hina var víðáttan algerlega ókunnugt fyrirbæri sem ég gat illa skýrt út. Kannski er það þetta líkamlega minni, eða einhver stimpill á genamengið. Mikilvægast fyrir mig hefur verið að taka eftir þessu og tengjast,“ segir hún.
Kristín bætir því við að það hafi svo síðustu tvö árin, í þessum elífðarheimsfaraldri, sem þær Elín fóru að tala að fullri alvöru um að finna stað þar sem hægt væri að iðka eða sem styðja þessi tvö meginmarkmið, tengjast hvoru öðru og tengjast náttúrunni. „Hérna úti, og ég held á Íslandi líka, kom greinilega í ljós að fólk þráði þessa tengingu. Við lifum nefninlega á tímum annars faraldurs, sem er einmanaleiki, tengslaleysi, og var löngu byrjaður áður en Covid kom en klárlega gerði allt verra. Í starfi mínu sem geðhjúkrunarfræðingur varð ég líka að viðurkenna að margir eru að glíma við streituviðbrögð við umhverfinu sem við eigum kannski ráð við en er erfitt að leysa. Dæmi um þetta er til dæmis húsnæðisskortur, jaðarsetning, vinnuálag, fátækt, og kulnun. Ég upplifði líka á þessum tíma að við sem samfélag gengum í gegnum gríðalegt sorgarferli, en höfðum fá tækifæri til að tjá það, eða marka þessa reynslu með einhverju áþreifanlegu.“
Hún segir að heilbrigðisstarfsfólk sem starfar enn í heimsfaraldrinum staðfesti þetta. „Margir hafa hætt og hefur tíðni kulnunar í heilbrigðiskerfinu sjaldan verið hærri. Hópar og einstaklingar sem eru að vinna gegn samfélagslegu óréttlæti og í fjölda annarra starfa eru líka að brenna út. Við vitum þetta, og margir eru í markvissri vinnu að takast á við streituna með margskonar móti sem er frábært en yfirleitt miðað við einstaklinginn. Okkur langaði til að koma með aðra nálgun þar sem Þetta Gimli gæti veitt skjól fyrir hópa, fyrir tengingu, samræður og sögur. Þar sem við gætum æft þorpsvitundarvöðvann og samband okkar við náttúruna. Planið er að halda námskeið, samfélagsfundi, og veislur reglulega í tjaldinu.“
Og hvað þarf að gerast til að Þetta Gimli verði að raunveruleika?
Kristín segir að tjaldið góða sé núna í geymslu í Reykjavík. „Við erum með söfnun á Karolina Fund til að geta byggt pallinn undir tjaldið, undirstöðuna. Draumurinn er að geta sett tjaldið upp í sumar og þegar fer að hausta að reisa álhvelfingu yfir tjaldið til verndar gegn veðrinu.“