Hennar rödd og Vía útgáfa gefa út bókina Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Nú stendur yfir söfnun á Karolina fund fyrir útgáfukostnaði bókarinnar.
Í bókinni verður framlag kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélag heiðrað ásamt því að skapa umræður og auka skilning íslensk samfélags á stöðu kvenna af erlendum uppruna sem búa á Íslandi og upplifun þeirra af íslensku samfélagi.
Elinóra Guðmundsdóttir, ritstjóri Vía, Chanel Björk Sturludóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir, stofnendur Hennar Raddar eru ritstjórar bókarinnar. Hennar rödd eru félagasamtök sem starfa með það að markmiði að auka vitund meðal almennings á stöðu kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi. Vía er vefmiðill sem sérhæfir sig í samfélagsrýni og miðlun fjölbreyttra sjónarmiða í jafnréttismálum.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Chanel segir að móðir hennar, sem sjálf er kona af erlendum uppruna og bjó á Íslandi í mörg ár, hafi hafið skrif á bók um konur af erlendum uppruna á Íslandi. „Hún heillaðist af frambærilegum konum sem hafði tekist að koma sér fyrir í íslensku samfélagi oft án þess að þekkja nokkurn annan en maka við komuna til landsins. Hún heillaðist af bók Amelíu Líndal sem gefin var út árið 1962 sem lýsir lífi kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og vildi skrifa framhald af þeirra bók og fór af stað með verkefnið árið 2009 ásamt WOMEN samtökunum. Ekki virtist vera mikill áhugi meðal útgefanda á málefninu á þessum tíma og var bókin aldrei gefin út.“
Elínborg greinir frá því að þær trúi því að meiri áhugi sé fyrir málefninu í dag en á sínum tíma. Fjölbreytileiki í samfélaginu fari vaxandi með hverju árinu og sé fólk meira meðvitað um það og tilbúið að kynna sér málefni jaðarhópa.
Elinóra segist hafa fengið hugmynd um að skrifa sögur um konur af erlendum uppruna og hafði hún samband við Chanel og Elínborgu um vorið 2020. „Þar sem þær voru sjálfar að plana að skrifa bók um sama efni, og því var tímasetningin fullkomin og við hófum samstarf við bókina. Samstarfið hefur gengið ótrúlega vel og sameinar hugsjónir beggja aðila, Vía og Hennar Rödd, sem stefna að vitundarvakningu um málefni jaðarhópa og jafnara, upplýstara og virðingarríkara samfélagi,“ segir hún.
Segið okkur frá þema verkefnisins
Chanel útskýrir að í bókinni komi fram sögur 36 kvenna af erlendum uppruna. Viðtöl fyrir bókina hafi verið tekin haustið 2020 og þeirra sögu verði miðlað til lesenda með áhrifaríkum en hráum frásögnum, myndum, ljóðum og öðru efni úr einkasafni þátttakenda.
„Bókin er fjölradda frásögn og eiga viðmælendur rætur sínar að rekja til ótalmargra landa. Sögurnar eru bæði á íslensku og ensku svo að þær nái til fleiri í samfélaginu. Gaman er að segja frá því að leitað var til almennings um tilnefningar á konum sem hafa auðgað samfélagið með einhverjum hætti og viðbrögðin fóru fram úr okkar björtustu vonum,“ segir hún.
Elínborg segir að með bókaútgáfunni vilji þær auka sýnileika kvenna af erlendum uppruna sem er sívaxandi hópur á Íslandi og valdefla með því að skapa vettvang þar sem röddum þeirra sé gefinn hljómgrunnur sem áður hafi verið ábótavant. „Jafnframt skapast ný þekking hvað varðar persónulega upplifun kvenna af erlendum uppruna sem er mikilvæg viðbót við þær rannsóknir sem til eru um þennan samfélagshóp. Markmið okkar er að auka skilning á veruleika kvenna af erlendum uppruna á Íslandi ásamt því viðurkenna framlag þeirra til samfélagsins.“
Hvernig hefur verkefnið gengið?
Elinóra segir að þeim hafi gengið vel með verkefnið en í upphafi verkefnisins hafi verið tekin ákvörðun um að gefa bókina út á eigin vegum.
„Fullt vald á ritstjórnarferlinu og möguleikann á að gefa til baka til samfélags kvenna af erlendum uppruna á Íslandi ef bókin skilar hagnaði eru helstu forsendurnar fyrir því að bókin verði gefin út með þessum hætti. Vert að nefna að margt hæfileikaríkt fólk hefur lagt okkur lið frá því að verkefnið hófst. Kaja Sigvalda tekur ljósmyndir fyrir bókina og Kolbeinn Jara Hamíðsson ásamt Þorgeiri Blöndal sjá um hönnunina. Ásdís Sól Ágústsdóttir sér svo um þýðingu bókarinnar.
Verkefnið hefur jafnframt hlotið styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka, Samfélagssjóði Eflu og Borgarsjóði mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar. Hins vegar þurfum við að ná markmiði okkar á Karolina fund til að geta greitt fyrir útgáfukostnað bókarinnar. Við hvetjum því fólk til þess að styrkja verkefnið og í leiðinni tryggja sér bók á forsöluverði,“ segir hún að lokum.