Karolína Helenudóttir er einn af eigendum Sykurverks. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á bakstri og kökuskreytingum. Hún hefur haft einstaklega gaman að því að búa til kökur með mömmu sinni og systur, sem einnig eru eigendur Sykurverks, öll sín uppvaxtar ár sem leiddi til þess að þær ákváðu að opna saman veisluþjónustu og kaffihús sem hefur fengið gríðargóðar viðtökur. Þær bjóða upp á fjölda af alls kyns spennandi kökum, makkarónum og cupcakes sem og klassískar brauðtertur, skonsutertur, rjóma- og marengstertur svo dæmi séu tekin.
Þær leggja mest upp úr veisluþjónustunni sem eru aðallega veislukökur s.s. fyrir afmæli, brúðkaup, fermingar o.þ.h. Allar kökurnar eru svo sérsniðnar eftir óskum hvers og eins, hvað varðar útlit sem og bragð. Allt sem þær bjóða upp á er framleitt á staðnum, með þeirra eigin uppskriftum. Nú þurfa þær að stækka vinnusvæði, veitingasal, tæki og tól sem og bæta aðgengi til muna og safna þær því fyrir nýju húsnæði á Karolina Fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin af Sykurverki?
„Hugmyndin byrjaði í kollinum á mér, ég byrjaði að spreyta mig í flóknari kökuskreytingum rétt áður en að fyrsta dóttir mín fæddist. Mig langaði læra að gera fallegar kökur fyrir kynjaveislur og afmælisveislur framtíðarinnar, þar sem að mamma hafði alltaf gert allar afmæliskökur sama hvað var beðið um af okkur systkinunum, hvort sem það var snákaspil, Svampur Sveinsson eða jafnvel Sylvía Nótt! Mamma setti sko ekkert fyrir sig í þessu og það langaði mig að geta gert fyrir mín börn líka. Við systurnar munum alltaf eftir þeirri tilfinningu og hreinni gleði sem falleg afmæliskaka skilar af sér og okkur langaði svo óendanlega mikið til að geta glatt aðra með þessari yndislegu tilfinningu,“ segir Karolína.
Hvers vegna ákváðum þið að leita til Karolina Fund?
„Sykurverk varð að veruleika árið 2020 í gömlu húsnæði með mjög litlu eldhúsi, það gekk mjög vel hjá okkur til að byrja með en þegar orðið fór að berast með fallegu og bragðgóðu kökunum okkar, þá varð eftirspurnin meiri og meiri þannig að okkur fannst við ekki geta athafnað okkur lengur á þessu litla svæði sem við erum með á staðnum þar sem við erum núna. Hugmyndirnar eru svo ótrúlega margar en til þess að geta boðið upp á breiðara úrval og einnig til að geta gert kökur fyrir alla þá sem þess óska, sáum við fram á það að við þyrftum hreinlega að flytja okkar rekstur í nýtt húsnæði.
Með því að opna nýjan stað verður aðgengið betra, við getum tekið við fleiri kökupöntunum og þurfum þar af leiðandi ekki að vísa jafn mörgum frá þegar fólk langar að fá köku frá okkur sökum plássleysis. Þar sem ekki er mikið um laus húsnæði með fullbúnu atvinnueldhúsi, höfum fengið nýtt húsnæði til leigu sem þarf nú að innrétta sem eldhús. Það er afar kostnaðarsamt og þess vegan ákváðum við að leita til fólksins til að aðstoða okkur að láta drauminn verða að veruleika. Kostirnir við að opna nýjan stað eru margir: Snyrtilegra húsnæði með betri aðkomu, stórt og gott útisvæði fyrir gesti til að njóta veitinga úti í sólinni, stærra eldhús svo við getum annað eftirspurn, okkar vinsæla crêpes verður hægt að fá allan daginn, aukið framboð á tilbúnum kökum og margt fleira. Okkur finnst svo ótrúlega gaman að gleðja bæjarbúa með fallegum og góðum kökum. Við yrðum mjög þakklátar ef þið vilduð hjálpa okkur að standa straumi við flutningskostnað þannig að við getum haldið því áfram,“ segir hún að lokum.
Hér er hægt að taka þátt í söfnuninni hér.