Eiki Helgason ákvað að taka málin í eigin hendur og koma upp innanhúss aðstöðu fyrir hjólabretti, hlaupahjól, línuskauta og BMX á Akureyri en það hefur verið draumur hans að hafa slíka aðstöðu síðan hann var tíu ára gutti. Eftir að hafa fengið litla undirtekt við hugmyndina hjá bænum ákvað hann að gera þetta á sinn kostnað. Fyrr á þessu ári flæddi hins vegar sjór inn í aðstöðuna, sem heitir Braggaparkið, og olli skemmdum sem reksturinn getur ekki staðið undir að laga. Því er safnað fyrir viðgerð á aðstöðunni á Karolina Fund.
„Mig hefur alltaf langað að hafa innanhúss aðstöðu hérna í bænum fyrir þessar íþróttir því að veðrið á Íslandi er ekki alltaf með manni í liði hérna þar sem að rigning, vindur og snjór koma í alveg veg fyrir að það sé hægt að stunda þær.
Ég var búinn að hafa einhverja hugmynd lengi um það hvernig ég vildi gera þetta en það var alltaf erfitt að finna laust húsnæði sem hentaði á Akureyri. Við vorum smá hópur sem fórum á fund með bænum en það var sama vandamál, ekki til húsnæði og peningar í svona, þannig að ég ákvað að prófa að demba mér meira í mína hugmynd.“
Hann gafst þó ekki upp, hafi upp á nýja eigandanum og spurði hverjar hans áætlanir væru og hvort hann hefði áhuga á að leigja sér húsið. „Hann tók mjög vel í það, við græjuðum samninginn og við félagarnir byrjuðum að smíða annan salinn. Svo þegar hann var klár þá var ég í rauninni alveg búinn með allan peninginn minn. Þá fékk ég símtal um að Reykjavík langaði að fá úti-skatepark á Miðbakka og spurðu hvort ég gæti smíðað það. Ég tók því auðvitað um leið og allt sem ég skráði á mig sem laun þar fór beint í að geta haldið áfram með seinni salinn.“
Eiki segist hafa vitað frá upphafi að þetta yrði ekki auðveldur rekstur. Hann var raunar búinn að sjá fram á taprekstur en segist alltaf hafa horft á verkefnið sem sitt hobbí og að honum finnist að fólk megi eyða peningum í hobbíin sín. „Frá því ég opnaði þá hef ég hins vegar alveg séð hvað það var mikið þörf á þessu hér því það er alveg slatti af krökkum og fullorðnum sem nýta sér aðstöðuna. Við bjóðum líka upp á sér fullorðins kort fyrir 16 ára og eldri sem veita aðgang allan sólarhringinn. Það er myndavélakerfi sem fylgist með og auðvelt að finna út ef einhver kemur inn í einhverjum leiðinlegum tilgangi.“
Að sögn Eika þá gerir það fyrirkomulag það að verkum að aðstaðan hans er afþreying sem ungt fólk getur valið sér valkost við skemmtanalífið á kvöldin. „Það er mjög gaman að sjá hvað margir kjósa þetta fram yfir djammið og þar með hefur þetta mikið forvarnargildi. Gallinn við rekstur sem er svona +/- núll er að þegar eitthvað kemur upp eins og eitt stykki flóð, sem ég var ekki tryggður gegn, þá er enginn varasjóður til að hendast bara í framkvæmdir á núll einni nema það komi enn og aftur bara úr eiginn vasa.“
Þess vegna réðst Eiki í söfnun í gegnum Karolina Fund. Til að athuga hvort fólk væri til í að aðstoða uppbygginguna því margt smátt geri eitt stórt. „Þótt þetta sé kannski ekki einhver gígantísk upphæð sem þarf til að koma þessu í stand aftur að þá er hún samt mjög stór fyrir einn mann að taka á sig. Þannig að ég vill bara nota tækifærið og segja takk kærlega við alla sem nú þegar hafa styrkt þetta og þau fyrirtæki sem hafa lagt þessu lið. Þær móttökur urðu að minnsta kosti til þess að ég fór strax að huga að viðgerðum sem standa nú yfir.“