Benna Sörensen, doktorsnemi og stofnandi Ofbeldisforvarnaskólans hefur lengi brunnið fyrir málefnum ungs fólks og er að hefja doktorsrannsókn á forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi meðal íslenskra unglinga. Hún og Ásta Sól Kristjánsdóttir safna nú fyrir verkefninu Yfir Strikið á Karolina Fund en það er hluti af stærra verkefni Ofbeldisforvarnaskólans.
Hvernig kviknaði hugmyndin?
„Hugmyndin að verkefninu kom upp í tengslum við önnur verkefni sem við erum að vinna að og fjalla öll á einn eða annan hátt um að auka sjálfstraust fólks til að takast á við forvarnir gegn kynbundnu ofbeldi. Við erum með frábært samstarfsfólk úr félagsmiðstöðvum úti í Skotlandi og hér heima. Saman höfum við komist að því að það er mikill vilji til að efla þessar forvarnir en vantar kannski aðeins upp á að fólk hafi nægan stuðning til þess. Við höfum þess vegna verið til dæmis að vinna að námskeiði fyrir kennara og starfsfólk félagsmiðstöðva til að efla þau í að leiða unglingahópa í forvarnarvinnu. Þetta gátum við gert fyrir styrk frá Erasmus+.
Í þeirri vinnu kom upp að næsta skrefið væri auðvitað að gera allt sem við getum til að styðja unglingana sjálfa í að nálgast fræðslu þar sem þau sjálf velta fyrir sér og gera upp við sig hvar mörkin liggja í samskiptum. Jafningjafræðsla er ótrúlega mikilvægur partur af menntun ungs fólks og sérstaklega þegar kemur að málefnum sem snerta þeirra eigin reynslu, enda sjáum við að hver byltingin á fætur er knúin áfram af ungu fólki og það eru þau sem eru að breyta samfélaginu okkar til hins betra.“
Segið okkur frá þema verkefnisins
„Niðurstaða okkar var sem sagt þetta þema, Yfir strikið. Samskipti sem fara yfir strikið. Vefsíðan er þannig að þar birtast örsögur af ofbeldi eða óheilbrigðum samskiptum þar sem þau sem skoða hana strika yfir hegðun sem þeim finnst fara yfir strikið. Á síðunni geta þau svo líka borið sína upplifun saman við mat fagfólks í ofbeldisforvörnum ef þau kjósa að gera það og séð hvar er hægt að leita hjálpar. Aðalatriðið er samt alltaf sú hugsun og umræða sem á sér staðar hjá unglingunum sjálfum.“
Á Karolina Fund-síðunni kemur fram að þessar sögur séu frá mismunandi sjónarhornum, af hverju er það?
„Já, það er rétt. Þarna sjáum við sögur bæði frá sjónarhorni ungs fólks sem hefur lent í að þeirra mörk séu ekki virt og líka þeirra sem hafa fattað eftir á að þau sjálf voru ekki að virða mörk annarra. Það er vegna þess að það skiptir ótrúlega miklu máli að geta sett okkur í spor þeirra sem verða fyrir ofbeldi, átta okkur á því hvernig fólki líður og þekkja hegðun sem fer yfir strikið. En svo er líka svo mikilvægt að við lærum að spá í því hvort við sjálf höfum gert mistök, hvort það geti verið að við höfum farið yfir mörk eða jafnvel beitt ofbeldi. Með síðunni ætlum við okkur að styðja við sístækkandi safn forvarnarefnis um kynbundið ofbeldi.“
Hægt er að styðja við verkefnið hér.