María Viktoría, Vala Yates og Elena Arngrímsdóttir eru þrjár ungar konur sem hafa fetað mismunandi slóðir til þess að viðhalda eigin heilbrigði. Þær hafa sett saman sjálfstyrkingarnámskeið fyrir unglinga með jóga og tónlist. María og Vala settu saman tónlistina en Elena setti saman jógað sem samanstendur af hugleiðslu og öndun. Safnað er fyrir námskeiðinu á Karolina Fund.
María segir að hugmyndin að verkefninu hafi kviknað þegar hún var í markþjálfanámi hjá Evolvia 2020. „Eitt lokaverkefnið í okkar námi var að kynna vöru, alvöru eða ímyndun, og selja hópnum. Ég fylltist eldmóði og mundi eftir langþráðum draumi mínum sem var að halda sjálfstyrkingarnámskeið. Þetta hafði verið draumur frá 2016 og ég nú læt hann loksins verða að veruleika með góðum vinkonum, Elenu og Völu, sem deila sama draumi! Í náminu náði ég einstaklega mikið að tengjast mínum eigin kjarna, gildum og tilgangi og langar að gefa það áfram. Ég var svo heppin að finna þær því að þær geta bætt sínum gjöfum við sem gerir námskeiðið mun ríkara.“
Það sé mikilvægt vegna þess að allir eigi það skilið að fá að vera þeir sjálfir, vera hamingjusamir og líða vel í eigin skinni. „Við höfum allar lært þessi tæki og tól sem að eru áhrifarík og umbreytandi. Okkur finnst allir eiga það skilið að njóta góðs af þeim og ekki síst unga kynslóðin.“