Petra Bender er fatahönnuður og útskrifaðist úr Parsons School of Design í New York með hæstu einkunn. Hún sótti MA-nám í textíl í CSM í London og grafíska hönnun í LHÍ. Hún hefur unnið á Íslandi og í London, þar á meðal fyrir Nike þar sem sérstaða hennar var þekking á sportfatnaði og mynsturgerð.
Undir merkinu By Petra Bender hef hún hannað fatalínur, þar á meðal sundfatnað. Hún stundar sjóíþróttir og blandar saman íþróttum og tísku, sem er sérstaða By Petra Bender. Hún safnar nú fyrir verkefni á Karolina Fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Ég hef unnið í sundlaugunum í gegnum árin, eða síðan ég var 18-20 ára með skóla – alltaf á sumrin og líka á Ylströndinni í Nauthólsvík meðan að ég var í hönnunarnámi. Þannig að ég er búin að fylgjast með baðmenningunni í gegnum árin, bæði sem starfsmaður og sundgestur,“ segir Petra.
Hún segist jafnframt hafa mikinn áhuga á íþróttafatnaði en hún starfaði fyrir Nike í London, eins og áður segir. „Íþróttir og föt renna saman í eitt áhugamál. Þannig að já, það hefur kitlað í mörg ár að búa til sundfatnað.“
Petra segir að sjór og vatn sé svo heilandi en henni finnst skipta máli að fólk klæðist sundfötum sem lætur því líða vel og höfðar til þess. „Ég hef mikinn áhuga á útivist svo sem sjósundi og brimbretti. Út frá því vaknaði áhugi minn á þróun sportfatnaðar með vistvænum áherslum.“
Segðu okkur frá þema verkefnisins
„Sundmenningin er stór partur af íslensku samfélagi. Íslendingar á öllum aldri nota sund til að endurnæra sig; félagslega, andlega og líkamlega. Markmiðið er að hanna sundfatnað fyrir íslenskar konur. Sniðið er innblásið af brimbrettafatnaði með íslenskan sjó og sundmenningu í huga. Sundbolinn hefur verið í þróun og er komin ein útfærsla af honum.
En mig langar að taka næsta skref og verður sundbolurinn þróaður með öðrum efnum sem eru endurunnin gæðaefni og umhverfisvæn. Sniðið er hugsað til að einstaklingurinn geti sem best náð árangri í hreyfingu en á sama tíma er bolurinn stíllegur og þægilegur,“ segir hún.
Að endingu greinir Petra frá því að endurskin sé í saumunum á fatnaðnum sem sé hugsað til að sá sem klæðist sundfötunum sjáist í myrkri. „Lógóið mitt er tveir sæhestar með einhyrningshorn sem spegla sig í hvor öðrum.“