Söngkonan Kristjana Arngrímsdóttir er um þessar stundir að vinna að sinni fimmtu plötu. Að þessu sinni stígur hún fram sem lagasmiður og er þetta fyrsta frumsamda plata hennar. Lögin eru samin við ljóð ýmissa skálda sem eru að mestu leyti konur. Platan er unnin í samstarfi við tónlistarmanninn Örn Eldjárn, sem er jafnframt sonur Kristjönu. Hann sér um útsetningar, hljóðfæraleik, hljóðfæraskipan og upptökur.
Kristjana segir að hugmyndin að verkefninu hafi sprottið upp úr unun hennar af því að lesa ljóð. „Oft kviknuðu laglínur út frá þeim. Ég fór að taka þessar laglínur saman og sá þá að ég var komin með ágætis safn laga. Ég söng lögin fyrir son minn, Örn Eldjárn og hann fór að flétta hljómavef í kringum þau. Úr varð að við fluttum þessi lög á tónleikaröð okkar, sem nefnist Gestaboð Kristjönu, ásamt vini mínum og samstarfsmanni til margra ára, Jóni Rafnssyni, og þá lá beint við að gefa þessi lög út á plötu.“
Kristjönu hlakkar til að fá að deila lögunum með Íslendingum og ekki síður þeim fallegu ljóðum sem höfðu mikil áhrif á hana. „Ég er nú þegar búin að gefa út fyrsta lagið, sem nefnist Konan með sjalið og hægt að nálgast það á öllum helstu streymisveitum. Það er spennandi að stíga fram sem lagahöfundur eftir að hafa sungið lög eftir aðra í 35 ár. Þar sem ég stend á sextugu vil ég sýna að það er aldrei of seint að láta drauma sína verða að veruleika.“
Kristjana þakkar Hljóðritasjóði Rannís fyrir sinn stuðning við gerð plötunnar. „Þá vil þakka Karolina Fund fyrir að búa til vettvang, og fólkinu sem hefur nú þegar styrkt mig í gegnum sjóðinn. Það er ómetanlegt, sérstaklega á viðsjárverðum tímum sem þessum.“