Sofia Novakova, leik- og kvikmyndagerðarkona frá Slóvakíu sem hefur meðal annars komið fram í þáttunum Van Helsing á Netflix og Carniwal Row á Amazon Prime, er þessa dagana búsett á Íslandi í þeim tilgangi að taka upp stuttmyndina DÓTTIR, sem fjallar um ást, þráhyggju og brotna sjálfsmynd.
Sagan og handritið er eftir Sofiu sjálfa sem einnig leikur í myndinni ásamt íslensku leikkonunni Rakel Ýr Stefánsdóttur. Safnað er fyrir kostnaði við myndina á Karolina Fund.
Hér að neðan segir Sofia ögn frá myndinni og ástæðum þess að hún er stödd hér á landi að framleiða myndina.
Hvernig kviknaði hugmyndin að verkefninu?
„DÓTTIR er um sjálfsmynd og ég hef alltaf verið að reyna að finna sjálfa mig, alltaf verið í þessum tilvistarpælingum. Ég held að sjálfsmyndin sé okkur öllum mikilvæg, sérstaklega þegar hún mótast af erfiðri æsku eða geðröskunum. Aðeins með því að horfast í augu við okkur sjálf, sjálfsmynd okkar, getum við raunverulega lært og orðið betri manneskjur. Ég gekk lengi með þessa hugmynd. Þegar ég kom svo fyrst til Íslands fyrir fjórum árum féll ég í stafi yfir fegurð og dulúð landsins. Ég vissi strax að hér vildi ég búa kvikmyndina til.“
Sofia segir að myndi fjalli um unga konu að nafni Leah sem kemur til Íslands eftir erfið sambandsslit.
„Hér kynnist hún manni sem er í miklu ójafnvægi og þjáist af geðhvörfum. Milli þeirra verða miklir árekstrar en á sama tíma sjá þau sig speglast hvort í öðru og að lokum setur maðurinn henni afarkosti. Ást, þráhyggja, andleg heilsa, einangrun og einsemd eru stef sem koma fyrir. Það má segja að þetta sé saga þar sem Fríða og dýrið mæta Dr. Jekyll og herra Hyde. Þetta er ástarbréf til Íslands. Þetta er allt. DÓTTIR er mjög persónulegt verk en á sama tíma snertir það alla.“