Jólasveinarnir í Esjunni eftir Lárus Hauk Jónsson og Guðjón Inga Eiríksson er bók sem vonandi kemur út um næstu jól. Bókin byggir á ævintýri sem Lárus Haukur, Lalli, skapaði í huga sér fyrir mörgum árum en Guðjón Ingi Eiríksson bætti við og færði í letur. Bókin er myndskreytt af listamanninum Haraldi Péturssyni. Safnað er nú fyrir útgáfunni á Karolina Fund.
Lárus hefur síðustu áratugi glímt við MS-sjúkdóminn, en hefur alltaf haldið áfram að gefa af sér og dreifa gleði, skrifa sögur og létta landanum lundina. Hann var á sínum tíma mikill markahrókur í knattspyrnu og gat sér gott orð í Aftureldingu um árabil. Þá var hann einn af lykilmönnum Leikfélags Mosfellsbæjar og hefur að auki margoft birst í aukahlutverkum í íslenskum kvikmyndum.
Hvernig hófst þetta samstarf?
„Lalli er búinn að ganga með þessa bók í maganum í mörg ár og sagði mér frá henni á sínum tíma, sennilega um 1995 eða ´96. Ég aðstoðaði hann síðan við að koma hugmyndinni á blað þar sem við erum búnir að þekkjast lengi og erum góðir vinir,“ segir Guðjón. „Hann er örlítið fljótari en ég að vélrita,“ bætir Lárus við og glottir.
Þess má geta að Lárus hafði ekki hugmynd um að Guðjón væri að bauka við þetta á síðasta ári, enda voru þá fjölmörg ár síðan að þeir fóru í þetta ferðalag saman í huganum. „Þessi frábæra hugmynd hans Lalla lét mig bara aldrei í friði og mér fannst að hún yrði að komast á prent,“ segir Guðjón. „Nú stefnir í það að hún verði að bók og ég veit að margir munu hafa gaman af.“
Vinir Lalla úr fótboltanum með Aftureldingu, sem kalla sig Bossa-blossa, hittast alltaf hjá Lalla í kringum jólin og þeir ákváðu um síðustu jól að aðstoða við að safna fyrir útgáfunni. „Bossablossar er að sjálfsögðu nútíma íslenska fyrir Aftureldingu,“ útskýrir Guðjón.
Um hvað fjallar bókin svo?
„Bókin fjallar um Lalla, sem er nýkominn úr erfiðum fótboltaleik og nennir ómögulega að fara með foreldrum sínum og systur á Esjuna að honum loknum. Svona eins og krakkar eru oft með foreldrum sínum. Hann var dauðþreyttur, en argur og með semingi fer hann samt með og þegar upp er staðið verður þetta ferð sem hann sér alls ekki eftir. Á Esjunni kynnist hann m.a. jólasveinunum og kemst að því að einn þeirra hefur mikinn áhuga á fótbolta. Hver skyldi það vera?“
Hver sjáið þið fyrir ykkur að sé lesendahópurinn?
„Lesenda- og hlustendahópurinn eru drengir og stúlkur á aldrinum 4-12 ára. Bókin er um 90 síður í stóru broti og með letri sem hentar vel fyrir börn sem eru að byrja að lesa, svo er hún skemmtilega myndskreytt af Haraldi Péturssyni. Hún höfðar til þeirra sem hafa gaman af fótbolta, ævintýrum og skemmtilegri atburðarás. Annars geta að sjálfsögðu allir lesið bókina, þetta er skemmtileg lesning,“ segja þeir félagar, Lalli og Guðjón.
Til að styrkja útgáfu þessarar bókar og dreifa gleði og hugmyndaheimi Lárusar Hauks er nú safnað fyrir útgáfukostnaði á bókinni JÓLASVEINARNIR Í
ESJUNNI á Karolina Fund en bókin fer í prentun á næstu vikum.