„Staðan er einfaldlega sú að við eigum afar lítið eftir í sjóðnum okkar,“ segir Sara Mansour, einn af skipuleggjendum Druslugöngunnar í ár. Safnað er fyrir undirbúningi göngunnar á Karolina Fund og til að bjóða upp á fræðsluefni og leiðbeina þolendum kynferðisofbeldis um úrræði.
Er druslugönguhugmyndinni var fyrst hrint í framkvæmd fyrir rúmlega áratug fengust styrkir frá hinu opinbera og öðrum aðilum. Fljótlega fór gangan þó að standa undir sér með sölu á varningi en síðastliðin tvö ár hefur enginn varningur selst þar sem óhægt var að halda gönguna vegna sóttvarnartakmarkana. Eigi að síður féllu til ýmis útgjöld, til dæmis var gefið út druslu-tölublað árið 2020 og árið 2021 og eins hafði þegar verið stofnað til ýmissa fjárhagslegra skuldbindinga þegar ákveðið var að hætta við gönguna á seinustu mínútu. „Hvort um sig hafði í för með sér að við áttum í nokkrum erfiðleikum með að standa í skilum og óvíst hvernig það tækist í ár ef ekki væri fyrir söfnunina,“ segir Sara.
Það kom því aldrei annað til greina en að halda einhvers konar fjáröflun til viðbótar við sölu á varningi. Sara segir kostnaðinn við að halda gönguna óneitanlega hafa aukist með árunum, eftir því sem hún hefur orðið umfangsmeiri og fjölsóttari viðburður. „Mér finnst mikilvægt að fólk átti sig á því að þótt öll sem eru í teyminu annist skipulagninguna í frítímanum sínum, oftast undir miklu álagi, og að öll sem leggja hönd á plóg geri það í sjálfboðavinnu, til að mynda tónlistarfólk, ljósmyndarar, grafískir hönnuðir og skemmtistaðaeigendur, þá eru samt alls konar kostnaðarliðir sem við komumst ekki hjá því að greiða fyrir og eru það oftast afar háar fjárhæðir. Okkar von er að með því að safna peningum fyrirfram getum við efnt nauðsynlegar samningsskuldbindingar og jafnvel skilið eftir smávegis sjóð fyrir næstu stjórnir.“
Sara segir Karolina Fund þægilegan miðil því þar sé bæði hægt að þiggja frjáls framlög en einnig að bjóða fólki að kaupa varning. „Við erum með alls konar varning í boði og síðan er líka hægt að kaupa þakkarmyndbönd frá teyminu, sem er algengt í svona söfnunum.“
Eini gallinn er sá að Karolina Fund tekur einungis við kreditkortagreiðslum og því minnir Sara fólk á að varningurinn verður til sölu eins og venjulega í aðdraganda göngunnar og þá er hægt að borga með hvers konar greiðslukorti, sem og reiðufé og millifærslum. „Þetta verður allt auglýst þegar þar að kemur, og ég mæli þess vegna með að áhugasöm fylgist með Druslugöngunni á samfélagsmiðlum, Facebook og Instagram.“
Druslugangan fer fram laugardaginn 23. Júlí. „Ég vonast auðvitað innilega til að sjá sem flest,“ segir Sara.
Lagt verður af stað frá Hallgrímskirkju kl. 14 og rölt niður á Austurvöll, þar sem haldnar verða ræður og tónlist flutt til valdeflingar og skemmtunar fyrir viðstadda. „Þetta er alltaf mögnuð upplifun og ég held að eftir tveggja ára innilokun sé umgengnin við aðrar manneskjur sérstaklega dýrmæt.“