Á Bakkafirði er verið að vinna að verkefni sem okkur lék forvitni á að vita meira um. Bakkafjörður er fámennt byggðarlag á Austurlandi nánar tiltekið á milli Vopnafjarðar og Þórshafnar. Okkur fannst spennandi að kynna okkur af hverju ráðast á í þetta verkefni á þessu svæði og hverjir stæðu að því. Við tókum viðtal við eigandann, Jóhönnu Magnúsdóttur.
Hún segir hugmynda að verkefninu hafa kviknað þegar hún var að skoða möguleikann á öðru verkefni á Bakkafirði sem gekk ekki eftir. „Ég fór nokkrar ferðir til Bakkafjarðar í tengslum við það í fyrravetur og fór meðal annars að skoða Bjarg sem er friðað hús sem stendur rétt fyrir utan þorpið og fannst það á fallegum stað. Vinkona mín þekkti fyrrverandi eiganda og hún kannaði fyrir mig hvort húsið gæti verið til
sölu þar sem það hafði eingöngu verið notað sem sumarhús hin síðustu ár. Svo reyndist vera og ég bauð í húsið og fékk það.“
Í fyrstu ætlaði Jóhanna eingöngu að reka þarna gistiheimili en þegar hún fór að skoða það sem fyrrverandi eigendur skildu eftir í húsinu þá fannst henni að hún yrði að gera eitthvað með þá muni og þá merkilegu sögu sem húsið segir. „Hún tengist sjávarútvegi hér fyrir austan og veru færeyskra sjómanna hér við strendur og samskiptum þeirra við okkur Íslendinga. Mér fannst líka nauðsynlegt að kynna fleiri staði og þætti í sögu okkar fyrir Íslendingum sem og hinum almenna ferðamanni. Til að fá ferðafólk út af þjóðvegi eitt þarf að hafa eitthvað sem vekur athygli hjá því. Það dugar ekki að bjóða eingöngu upp á gistingu því ferðafólk leitar að einhverju sem það getur skoðað og upplifað.“
Jóhanna ákvað því að setja upp menningar- og kaffihús í kjallara hússins, sem var fyrir bara notuð sem geymsla. „Áður fyrr voru þar líka tvær
kýr og einhverjar ær en aðalatvinna fólksins sem hefur búið í húsinu hefur verið sjómennska og útgerð. Það er mikið verk fyrir höndum að koma húsinu í þokkalegt horf og enn fremur dýrt að gera upp svona gömul, friðuð hús svo að sómi sé að. Ég ákvað því að kynna þetta verkefni fyrir þeim sem eru með Karólína Fund en þar gefst fólki tækifæri á að styrkja þetta verkefni með beinum fjárframlögum eða með því að kaupa sér aðgang að menningarhúsinu og kaffihúsinu i nokkurs konar forsölu. Svo er einnig hægt að styrkja verkefnið með því að kaupa gistingu sem er staðsett á efri hæð hússins. Þar eru þrjú herbergi til boða sem hafa aðgang að salerni og eldhúsi. Svo verður sett upp setustofa á jarðhæðinni. Það sem er einstakt við þennan stað er fámennið og hversu rólegt er hér yfir öllu. Þetta er tilvalinn staður til að kúpla sig frá skarkalanum í þéttbýlinu og hlaða batteríin.“
Hún segist vona að sem flestir sjái sér fært að styðja þetta áhugaverða verkefni. „Mig hefur lengi dreymt um að standa að eigin rekstri. Það myndi svo ekki skemma fyrir ánægjunni ef þetta verkefni leiddi til frekari uppbyggingar á svæðinu. En það verður að segjast að þetta er svolítið gleymdur landshluti. Það eru fleiri aðilar sem hafa áhuga á svæðinu og eru með verkefni í gangi, þannig að ég tel að með öflugri uppbyggingu megi laða fleira fólk á svæðið.
En Bakkafjörður fellur nú undir verkefnið Brothættar byggðir, sem stendur að því að efla byggðir sem þarfnast utanaðkomandi aðstoðar til verkefna. Þannig að það er brýn þörf á að byggja upp á svæðinu, að fá fólk til að setjast hér að, og að fá ferðafólk til að fara þennan stutta spotta frá aðalveginum og kynna sér það sem hér er í boði.“