Kammeróperan er nýstofnað tónlistarfélag á Íslandi. Markmið Kammeróperunnar er að skapa vettvang fyrir smærri óperuverkefni, gera upplifun áhorfenda óformlegri en tíðkast hefur og óperu aðgengilegri. Stofnendur Kammeróperunnar eru Eggert Reginn Kjartansson tenór, Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Kristín Sveinsdóttir mezzósópran, Unnsteinn Árnason bassi. Þau byrjuðu ung að koma fram saman í Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar og síðan lá leið þeirra allra til Vínarborgar í söngnám. Nú eru þau öll búsett hérlendis eftir nám og vilja þau taka virkan þátt í að efla óperulistformið á Íslandi.
Jóna segir að hugmyndin að verkefninu hafi kviknað vegna þess að hópurinn vildi gera óperuna aðgengilega fyrir Íslendinga. „Okkur langaði til að brjóta upp klassíska formið þar sem áhorfendur sitja í þrjár klukkustundir og reyna sitt besta að halda þræðinum í óperu sem er á framandi tungumáli. Þess vegna ætlum við flytja þetta meistaraverk í íslenskri þýðingu og einnig stytta verkið örlítið svo áheyrendur geti notið sýningarinnar til fulls. Hugmyndin að bjóða fólki í óperukvöldverð kom svo í framhaldið. Öll erum við miklir matgæðingar og hugsuðum með okkur hvort það væri ekki skemmtilegt að bæta í upplifunina með þriggja rétta máltíð sem við svo tvinnum inn í sýninguna sjálfa. Þegar hugmyndin var komin þá datt okkur enginn staður annar í hug en Iðnó. Passar fullkomlega við stemninguna sem við viljum mynda og skemmtilegt að syngja og leika í svona miklu návígi við áheyrendur. Við ákváðum að Cosi fan tutte eftir Mozart væri hin fullkomna ópera fyrir þetta verkefni. Söguþráður óperunnar er bæði léttur og skemmtilegur og þó dramatíkin sé vissulega til staðar í óperunni þá er hún full af húmor. Tónlistin er snilldarlega samin og hentar afar vel fyrir unga söngvara.“
Tímavél sem flytur áhorfendur til Reykjavíkur í byrjun 20. aldar
Hún segir ekkert þema einkenna verkefnið utan þess að óperuflutningur er í forgrunni. Fólk megi búast við skemmtilegri og eftirminnilegri óperuupplifun fyrir gesti. „Þegar áheyrendur mæta í Iðnó stíga þau inn í tímavél sem flytur þau til Reykjavíkur í byrjun 20. aldar. Flytjendur eru í hlutverkum staðarhaldara Iðnó, þjóna til borðs og leika í kringum áheyrendur sem njóta matar, drykkjar, söngs og hljóðfæraleiks fram eftir kvöldi.“
Vilja láta óperulistformið blómstra
Að sögn Jónu er um að ræða fyrsta stóra verkefnið sem Kammeróperan skipuleggur og mikil spenna er hjá hópnum vegna þessa. „Við vonumst til að sjá sem flesta á sýningunum 26. og 27. október og er þetta kjörin sýning bæði fyrir óperuunnendur en einnig fyrir þá sem aldrei hafa farið á óperu.
Við viljum láta óperulistformið blómstra enn frekar hérlendis. Stétt óperusöngvara hefur staðið í ströngu undanfarin ár og er þá enn mikilvægara að skapa verkefni sem bæði vekur áhuga fólks á óperum en einnig sem veitir klassískum söngvurum tekjur í sinni starfsgrein. “
Þeir sem koma að sýningunni eru Bjarni Thor Kristinsson sem leikstýrir henni og Gísli Jóhann Grétarsson er hljómsveitarstjóri. Söngvarar eru Unnsteinn Árnason sem Guglielmo, Eggert Reginn Kjartansson sem Ferrando, Kristín Sveinsdóttir sem Dorabella, Lilja Guðmundsdóttir sem Fiordiligi, Jón Svavar Jósefsson sem Don Alfonso og Jóna sýngur sjálf hlutverk Despinu.