Á dögunum tók hópur afkomenda Símonar Daníels Péturssonar, uppfinninga- og hagleiksmanns frá Vatnskoti, sig saman og hóf undirbúning að Vatnskotssafni en þau safna nú á Karolina Fund fyrir safninu.
Símon og eiginkona hans Jónína Sveinsdóttir úr Grafningi hófu sinn búskap í Vatnskoti í Þingvallasveit og eignuðust fimm börn sem öll náðu háum aldri. Þau voru í aldursröð: Pétur, Helga, Katrín, Sveinborg og Aðalsteinn. Fleiri af afkomendum Vatnskotshjónanna en börnin hafa þótt útsjónarsöm og handlagin svo það kemur þeim sem til þekkja ekki á óvart að hluti afkomenda hafi tekið sig saman og hafið undirbúning að Vatnskotssafni.
Þegar Helgu Hrönn Sigursteinsdóttur Melsteð, langafabarni þeirra hjóna, bauðst til kaups Harley Davidson árgerð 1931 sem er uppgert hjól Péturs frá Vatnskoti fóru hjólin að snúast og undirbúningur safnsins fór af stað fyrir alvöru. Að sögn Helgu var það bara of gott tækifæri til að sleppa, að fjárfesta í hjólinu, enda tengist stór hluti af æskuminningunum umræðu um Pétur frænda og ótrúlegum hæfileikum hans við að búa til og gera við tæki og tól.
„Ég ólst upp við að heyra sagðar sögur af langafa Símoni þúsundþjalasmið og ömmubróður mínum Pétri Símonar. Þegar fregnir af því að uppgert hjólið hans Péturs væri til sölu bárust og við ættingjarnir skoðum leiðir til að sameinast um kaup á því þá átti ég frekar auðvelt með að ákveða að kaupa það ásamt manni mínum Ingólfi Finnssyni. Þiggja þá í staðinn aðstoð ættingja við að fjármagna uppsetningu á Vatnskotssafni. Við vorum nokkur af afkomendunum í góðu sambandi þegar hjólið bauðst til kaups og þá voru rifjaðar upp sögur af þeim feðgum og fleirum úr frændgarðinum.
Það væri hægt að sitja í fleiri daga og rifja upp magnaðar sögur af því sem þeir aðhöfðust og framkvæmdu, enda greinilega dugnaðarforkar sem hafa hugsað í lausnum. Má þar nefna snjósleða sem Pétur byggði að hluta til úr gamalli flugvél, en talið er að sleði þessi sé sá fyrsti sinnar tegundar í Evrópu,“ segir Helga.
Helga segir enn fremur að með uppsetningu safnsins langar þau að varpa ljósi á hugmyndaauðgi og hagleik forfeðra þeirra og leyfa fleirum að kynnast sögunum af þeim sem þau ólust upp með. Einn af möguleikunum til þess að koma safninu á laggirnar var að fjármagna hluta uppsetningarinnar með hópfjármögnun á Karolina Fund.
„Við hjónin opnuðum á síðasta ári í félagsskap valinkunnra félaga okkar, Factory Car Museum í heimabæ okkar Breiðdalsvík. Þar höfum við í lausu plássi hafist handa við að opna Vatnskots safn þar sem hjólið verður í öndvegi, en við höfum einnig viðað að okkur ýmsum munum og verkfærum úr Vatnskoti. Einnig kemur til greina að sýna muni sem tengjast með einhverjum hætti hagleik afkomenda langömmu og langafa.
Við eigum enn eitthvað í land með að undirbúa húsnæðið en stefnum engu að síður á opnun 17. júní. Einnig erum við enn að falast eftir munum til sýnis á safninu, jafnvel að láni, þar sem við stefnum á að skipta reglulega út munum,“ segir hún að lokum.