Birch Tree Yurts er hugmynd sem Adrian Walder, 52 ára garðyrkjumanni frá Bretlandi, fékk þegar hann varð ástfanginn af Íslandi árið 2019 eftir ferðalag með syni sínum.
Markmið hans er að útvega ferðamönnum skemmtilega og hagkvæma orlofsgistingu. Áhersla er lögð á umhverfið en hann ætlar að reka fyrirtækið sem „óhagnaðardrifið“ og nota hagnaðinn til að fjármagna skógræktarstarf um allt Ísland. Hann vill jafnframt takast á við þau vandamál sem skapast hafa af völdum fjöldatúrisma. Adrian safnar nú fyrir verkefninu á Karolina Fund.
Hvernig kviknaði hugmyndin að þessu verkefni?
„Hugmyndin þróaðist í raun á nokkrum árum en ég hef alltaf elskað að vera úti og búa í sveitinni. Eftir fyrstu ferðina mína til Íslands í húsbíl gat ég ekki hætt að hugsa um landið og hvernig mér leið eins og ég ætti hér heima. Ég byrjaði að skipuleggja aðra lengri ferð en þá var heimurinn á hvolfi vegna COVID. Ég hélt áfram að rannsaka Ísland: Ég horfði á YouTube-myndbönd, las blogg og svo framvegis – og ég komst fljótt að því að ferðaþjónustunni á Íslandi fylgir nokkur vandamál. Ég horfði einnig á breskan sjónvarpsþátt sem heitir „New Lives in the Wild“ en nokkrir af þáttunum voru teknir upp á Íslandi og sýndu hvernig „venjulegt“ fólk hefði gefist upp á „9 tíl 5“-rútínu og byrjað nýtt líf til að lifa einfaldari lífsstíl í sátt við umhverfi sitt. Þetta varð þess valdandi að hugmyndin um Birch Tree Yurts varð til.
Ég er síðan nýlega kominn aftur úr lengra ferðalagi en ég fór yfir 2.600 kílómetra um allt Ísland. Þessi ferð hefur aðeins endurvakið löngun mína til að láta þetta gerast,“ segir hann.
Segðu okkur frá þema verkefnisins?
Adrian segir að þemað sé í rauninni frekar einfalt og veiti fólki tækifæri til að gista á skemmtilegum stað með áherslu á umhverfið. „Ég valdi „yurts“ af nokkrum ástæðum; þeir eru öðruvísi en gengur og gerist, hafa minni áhrif á umhverfið og frá viðskiptalegu sjónarmiði munu þeir „kynna“ sig í gegnum samfélagsmiðla. Fólk elskar að birta myndir og tala um einstaka staði sem það hefur dvalið á. Ég hef tekið eftir því undanfarin tvö ár að þetta eigi sérstaklega við þegar kemur að Íslandi.“
Er eitthvað annað sérstakt sem þú vilt segja um verkefnið?
„Já, eins mikið og þessi hugmynd snýst um ást mína á Íslandi og löngun mína til að búa og starfa þar þá er það miklu meira en það – ég vil reka verkefnið sem „óhagnaðardrifinn“ sjóð að lokum. Eftir rekstrarkostnað mun ég gefa 100 prósent af tekjum til styrktar skógræktar- og skógræktarverkefna um allt Ísland. Ég er nú þegar orðinn opinber samstarfsaðili One Tree Planted, stofnunar sem annast verkefni um allan heim, þar á meðal á Íslandi. Fyrir mér snýst þetta verkefni ekki um að ég þéni peninga fyrir sjálfan mig heldur að gefa til baka til lands sem ég hef elskað mjög mikið.“