Mikael Máni Ásmundsson er 25 ára tónlistarmaður sem nýtur sín best þegar hann er að semja tónlist og spila á gítar. Hann er að gefa út aðra plötu sína með hljómsveit sinni á tvöföldum vínyl. Ástæðan fyrir vínyl útgáfu er að hann vil hvetja til þess að fólk setjist niður til að hlusta á tónlist með vinum, eins og það gerir með bíómyndir eða þætti, í stað þess að hafa músíkina í bakgrunninum. Safnað er fyrir útgáfukostnaði á Karolina Fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Snemma eftir útgáfu 1. plötunnar minnar var ég kominn með stóran bunka af lögum sem ég var ekki að spila mikið með öðru fólki og þegar ég lít í baksýnisspegilinn þá er það ansi sorglegt. Snemma árs 2020 spilaði ég lögin af og til með Magnúsi Tryggvasyni og Lilju Maríu Ásmundsdóttur og þá varð okkur ljóst að þessi tónlist þurfti stærri hljóðheim. Í júní 2020 þá bað ég síðan einn besta vin minn Sölva Kolbeinsson um að vera partur af bandinu án þess að hugsa mikið um það sem er mjög ólíkt mér. Strax nokkrum dögum seinna sé ég útgáfutónleika hjá Ingibjörgu Elsu og bið hana um að hitta mig og Magnús til að skoða nokkur lög sem myndu enda á plötunni og það var augljóst að hún var síðasta púslið sem vantaði.“
Er eitthvað þema að finna á plötunni?
„Ég upplifi oft söguþráð í tónlistinni sem ég hlusta á og reyni að ýkja það í lögunum sem ég sem. Nostalgíuvélin er tónlistartímavél. Ég nota hana til þess að rifja upp það sem ég upplifði þegar ég samdi eða hlustaði mikið á ákveðið lag. Þannig ferðast ég aftur á þann stað lífsskeiðs míns þegar ég myndaði fyrst tengsl við lagið. Platan var unnin með þremur góðum vinum mínum og systur minni sem eru mjög opnir einstaklingar. Við erum að mörgu leyti gjörólík og ég talaði mismikið um þema tónlistarinnar við hvert og eitt, en þetta eru allt næmir einstaklingar þannig ég veit að allir voru meðvitaðir um þemað á sinn hátt. Hinsvegar á endanum þá erum við samt aðallega að einbeita okkur að búa til tónlist sem við sjálf myndum vilja hlusta á.“
Nú kemur fram á Karolina Fund-síðu Nostalgia Machine að platan blandi saman jazz, rokk og impresionisma. Er þess tónlist fyrir hvern sem er?
„Sumir halda að jazz tónlist sé bara fyrir risaeðlur eða hallærislegt fólk. Það er svo sem alveg skiljanlegt út af því það hefur verið mjög vinsælt að gera grín af jazz tónlist í popp-kúltúr og sumir vinir mínir sem segjast hata jazz hafa aldrei hlustað á hann! Ósk mín er að fólk hlusti á þessa tónlist án allra fyrirfram ákveðinna væntinga og frekar til að njóta og upplifa. Hafi fólk lítið hlustað á hljóðfæratónlist, myndi ég hvetja það til að hlusta kannski bara á eina hlið af plötunni til að byrja með eða finna eitt lag sem það fýlar og leyfa því að lifa með sér. Að finna tónlist sem maður elskar gæti jafnvel gert meira fyrir mann en að lesa 10 sjálfshjálparbækur!“