Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen hefur viðurkennt að við ítarlega innanhússskoðun á svindli sínu í haust hafi komið í ljós „óreglulegt magn útblásturs koltvísýrings“ úr bílnum þeirra, með öðrum orðum að magn koltvísýrings hafi verið skrúfað niður áður en vérnar voru sendar í prófanir. Allt að 800.000 bílar sem framleiddir eru í verksmiðjum Volkswagen Group kunna að vera „gallaðir“ að þessu leyti.
Það þýðir að aðrar bílategundir í eigu Volkswagen-samstæðunnar gætu verið framleiddir með útblástursgalla. Verksmiðjur á borð við Audi, Skoda, Bentley, Bugatti og Porsche eru í eigu Volkswagen.
Fyrirtækið tilkynnti um gallan í fréttatilkynningu seinnt í gærkvöldi á vefsíðu sinni. Strax í morgun höfðu hlutabréf í fyrirtækinu fallið um allt að 10 prósent í verði, áður en verðið jafnaði sig út 18 prósent lægra en það var við lokun markaða í gær.
Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna kom upp um svindl Volkswagen í september. Þá höfðu tölvur bílanna verið forritaðar til þess að gera greinarmun á því hvort þær væru tengdar við mælitæki eftirlitsaðila eða ekki og um leið minnka útblástur bílsins. Um leið og tölvurnar voru teknar úr sambandi mældist útblásturinn um 40 sinnum meiri en leyfilegt er.
Lofttegundin sem var til umræðu þá var nituroxíð sem getur verið hættulegt mönnum en hefur ekki mikil áhrif á loftslagið og loftslagsbreytingar. Við endurskoðun allra verkferla í tengslum við diesel-vélar Volkswagen viðurkennir fyrirtækið að magn koltvíoxíðs, CO2 (og þar af leiðandi eldsneytiseyðslu), hafi verið skrúfað niður og of lágt þegar vélarnar voru sendar til útblásturvottunar. „Megnið af vélunum til umræðu eru diesel-vélar.“
Matthias Müller, nýskipaður forstjóri Volkswagen, segist hafa tekið ákvörðun um að tilkynna um þetta í nafni gagnsæis. „Þetta er sársaukafullt ferli,“ lætur hann hafa eftir sér í fréttatilkynningu fyrirtækisins. Ljóst er að þessi uppgvötun og tilkynning mun hafa í för með sér gríðarlegt fjárhagslegt tjón fyrir Volkswagen. Fyrstu áætlanir fyrirtækisins gera ráð fyrir efnahagslegu tjóni sem nemur um tveimur milljörðum dollara.
Áður en skandallinn kom upp í september hafði Volkswagen ekki tapað peningum í ársfjórðungsuppgjöri í 15 ár. Fyrr á þessu ári tók bílaframleiðandinn meira að segja framúr Toyota sem stærsti bílaframleiðandi í heimi.