Evrópusambandið (ESB) þarf að vera minna áberandi í sumum málaflokkum, sérstaklega þeim sem snúa að því hvernig einstök lönd vilja starfa. Þetta sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í ræðu þegar hann útlistaði markmið sín í viðræðum við ESB um umbætur á sambandinu.
„Ekki gleyma því að Evrópusambandið samanstendur nú af 28 fornum evrópuskum þjóðum,“ sagði Cameron. „Sú fjölbreytni er helsti styrkur Evrópu. Bretland segir: Fögnum þeirri stðareynd og viðurkennum að svörin við öllum vandamálum séu ekki alltaf aukinn Evrópusamruni. Stundum er það minni Evrópa.“
Nigel Farage, formaður UKIP og þingmaður Breta á Evrópuþinginu, sagðist skilja ræðu Cameron þannig að hann færi ekki fram á neinar grundvallarbreytingar á aðild Bretlands að ESB. UKIP hefur barist fyrir því að Bretar gangi úr ESB en flokkurinn hlaut dræma kosningu í bresku þingkosningunum síðasta vor.
Cameron hefur sagst ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðsu um aðild Bretlands að ESB fyrir árslok 2017. Í ræðunni í dag sagðist hann vera mjög öruggur um að ná samningum við sambandið á meginlandinu.