Liðin helgi var afar tíðindamikil og viðburðarrík, jafnt á innlendum og erlendum vettvangi.
Fókus fjölmiðla var eðlilega enn mestur á hryðjuverkin í París og eftirmál þeirra. Freyr Eyjólfsson, fréttaritari Kjarnans í Frakklandi, skrifaði röð frétta og skýringa um það mál. Þar fjallaði hann meðal annars ítarlega um höfuðpaurinn Abdel Abaaoud, notkun vigamanna Íslamska ríkisins á lyfinu captagon, sem eru kröftugar og örvandi amfetamíntöflur, og frá sögulegri ályktun Frakka, sem lögð var fram og samþykkt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, þess efnis að öll ríki heims lýsi yfir stríði við Íslamska ríkið.
Þótt hryðjuverkaárásirnar sem framdar voru fyrir tíu dögum
síðan hafi verið mannskæðustu fjöldamorð sem framin hafa verið í Frakklandi frá
því í síðari heimsstyrjöldinni þá hefur Parísarborg þó oft verið skotmark
hryðjuverkaárása á undanförnum áratugum. Sagnfræðingurinn Kristinn Haukur Gunnarsson
rakti þær alvarlegustu.
Ef fram heldur sem horfir mun maðurinn klára auðlindir jarðar á næstu áratugum. Birgir Þór Harðarson hélt áfram umfjöllun sinni um loftlagsmál í aðdraganda loftlagsráðstefnunnar sem hefst í París 30. nóvember næstkomandi.
Herdís Sigurgrímsdóttir var ekki á ósvipuðum slóðum í fréttaskýringu um ógnvænlegar sviðsmyndir náttúruhamfara.
Borgþór Arngrímsson, fréttaritari Kjarnans í Danmörku, einbeitti sér að sögulegum tíðindum í danskri knattspyrnu. Morten Olsen, sem hefur verið viðloðandi danska landsliðið í knattspyrnu nærri linnulaust frá því snemma á áttunda áratug síðustu aldar, og þjálfað liðið síðustu 15 ár, er hættur.
Það gerðist líka ýmislegt innanlands um liðna helgi. Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, var í viðtali við hlaðvarpsþáttinn Grettistak um helgina. Þar sagði hún meðal annars að það væri afleitt að læknar á Íslandi fái ekki laun í samræmi við menntun sína og starf. Agnes sagðist þó ekki sammála því að menntun og starf presta væri minna virði en starf lækna, en prestar fá jafnan hærri laun.
Hún var ekki eina íslenska fyrirmennið sem vakti athygli um liðna helgi. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fór í útvarpsviðtal og sagði að skjöl um hann, sem komu úr sendiráði Sádí-Arabíu, hafi verið „meira og minna uppspuni og ýkjur.“
Þá deildu fangelsismálastjóri og eiginkona efnaðs fanga um hvað sé mannréttindabrot og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hvatti Íslendinga til að fylgja speki John F. Kennedy, sem Sigmundur segir að hafi verið framsóknarmaður, og hvatti landsmenn til að spyrja sig ekki hvað landið gæti gert fyrir þá heldur hvað þeir geti gert fyrir landið.
Og svo varð Björk, frægasti Íslendingur allra tíma, auðvitað fimmtug.