Guðni Ágústsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, segir nokkra stóra kúabændur, fyrirtæki sem komin séu inn í mjólkurframleiðslu og svokallaðir „bankabændur“ vilji bylta íslenska landbúnaðarkerfinu, varpa greiðslumarkskerfinu og gefa framleiðslu þess frjálsa. Guðni segir þá vilja verða stóra „stráka með stór bú og eiga enga vini.“ Vandamál dagsins eru þau að hluti af forystusveit bænda skilur ekki að fjölskyldubú eru sérstaða Íslands og ef þeim verði fækkað muni það verða „banabiti“ landbúnaðarins. Guðni skorar á Sigurð Inga Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að koma strax á nýjum búvörusamningum. Hann skorar einnig á ríkisstjórn Íslands að „salta nýgerðan tollasamning“ um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið, láta hann liggja eða „gera raunhæfar mótvægisaðgerðir til varnar íslenskri atvinnu á landsbyggðinni, en hann flytur mörg hundruð störf í iðnaði og landbúnaði frá Íslandi til ESB verði hann samþykktur óbreyttur.“
Þetta kemur fram í grein sem Guðni skrifar í Morgunblaðið í dag. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðni gagnrýnir ríkisstjórnina fyrir að slá ekki nægum hlífðarskildi í kringum ríkjandi landbúnaðarkerfið. Hann skrifaði einnig grein 15. október síðastliðinn, í Morgunblaðið, vegna tollasamninganna við ESB sagði hann Sigurð Inga vera hræddan við sjálfan sig og að stjórnmálamenn væru „bláeygir og hræddir að ganga gegn síbyljunni í fjölmiðlum og takast ekki á við áróðursöfl sem sjá innflutning alltaf í hillingum og gera grín að allri umræðu um að sjúkdómar geti borist með innfluttu kjöti, hvað þá lifandi dýrum".
Samningarnir við ESB fela í sér að Ísland fellir niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum og lækkar tolla á yfir 20 öðrum. Auk þess er samið um að báðir aðilar auki verulega tollfrjálsa innflutningskvóta m.a. fyrir ýmsar kjöttegundir og osta, sem munu koma til framkvæmda á tilteknum aðlögunartíma. Lækkun vöruverðs vegna samninganna getur numið tugum prósenta.
Segir Mjólkursamsöluna stefna í mikil rekstrarvandræði
Guðni segir Mjólkursamsöluna nú stefna í mikil vandræði vegna offramleiðslu vegna þess að nýir stjórnendur hennar ákváðu að greiða fullt afurðastöðvarverð fyrir alla framleiðslu í ár og árið 2016 líka. Nú hlaðist birgðir upp og Mjólkursamsalan stefni í rekstrarlega mikil vandræði „nema Auðhumla og KS sprauti inn peningum og borgi tapið“.
Guðni segir að að menn verði að vera klárir á því sem við taki þegar opinber verðlagning verði aflögð. Hún hafi komið í veg fyrir stóra afslætti af hálfu Mjólkursamsölunnar til risanna í dagvörusölu, sem myndu skipta milljörðum króna ef hin opinbera verðlagning yrði aflögð. „Neytendur hafa hagnast gríðarlega af störfum verðlagsnefndarinnar sem hugsar um hag heimilanna og bænda. Oft hefur mér virst eins og Samkeppniseftirlitið sé að störfum með stórversluninni, verðlagsnefndin hefur fært launafólki meiri kjarabætur en verkalýðshreyfingin viðurkennir og þar hafa fulltrúar hennar þó unnið fólkinu í landinu mikið gagn. Þetta hefur Ríkisendurskoðun og Hagfræðistofnun háskólans staðfest í úttektum á ákvörðunum nefndarinnar“.
Guðni lagði sjálfur fram breytingartillöguna við búvörulög sem lögfesti verðsamráð í mjólkurgeiranum þegar hann var landbúnaðarráðherra árið 2004. Sú breytingartillaga gerði fyrirtækjum sem starfa í þeim geira einnig kleift að starfa undanþegin samkeppniseftirliti.
Helstu niðurstöður skýrslu Hagfræðistofnunar, sem Guðni vitnar til í grein sinni, er þær að það kerfi sem er viðhaft á Íslandi við mjólkurframleiðslu gerir það að verkum að íslenska ríkið og eigendur þess, íslenskir neytendur, þurfa að borga um átta milljörðum krónum meira fyrir framleiðslu á henni en ef mjólkin hefði einfaldlega verið flutt inn frá öðru framleiðslulandi á árunum 2011 til 2013. Ríkið og neytendur borguðu 15,5 milljarða króna fyrir mjólkina á tímabilinu en innflutt mjólk, með flutningskostnaði, hefði kostað 7,5 milljarða króna. Reyndar er það svo að á tímabilinu sem um ræðir var framleitt meira af mjólk hérlendis en neytt var af henni. Neysla Íslendinga hefði einungis kostað tæplega 6,5 milljarða króna á ári. Offramleiðsla á niðurgreiddri mjólkinni kostaði neytendur og ríkið því milljarð til viðbótar.
Skýrsluhöfundar lögðu til að magntollar af mjólkurvörum verði afnumdir og verðtollar lækkaðir úr 30 prósentum í 20 prósent. Það ætti að nægja „til þess að ýmsar erlendar mjólkurvörur verði boðnar til sölu hér, en íslenskar mjólkurvörur verða þó áfram samkeppnisfærar. Neytendur hafa þá úr fleiri vörum að velja en nú og íslenskir framleiðendur fengju aukið aðhald.“ Á sama tíma vildu skýrsluhöfundar afnema undanþágu mjólkurframleiðsluiðnaðarins frá samkeppnislögum.
Guðni segir alla tapa
Guðni segir að nýir búvörusamningar verði að byggjast á þeirri matvælaþörf sem fyrir er í landinu og að bændurnir anni innanlandsmarkaðinum og efli sig á sérmörkuðum erlendis þar sem gæði, gott verð og sérstaða ráði för. „Í staðinn verði þeim tryggð umgjörð, stjórnkerfi og beingreiðslur sem neytendur njóta góðs af í lægra smásöluverði. Þessi leiðandi hópur örfárra kúabænda hrópar um að hér verði eitt heimsmarkaðsverð á mjólk og að öll mjólk verði keypt inn á fullu afurðastöðvaverði. Í dag er afurðastöðvaverðið um 85 kr. á lítra til bóndans. Hversu margir treysta sér til að framleiða á einhverju einu verði 55 til 65 krónum á lítra mjólkur? Þessi aðferð færir fjölda kúabænda í gjaldþrot eða neyðir þá til að láta framleiðsluna af hendi. Sauðfjárbyggðirnar eru okkur Íslendingum mikilvægar í byggðalegu tilliti og til framleiðslu á einstakri afurð. Offramleiðsla á lambakjöti inn á frost kallar á ný á gamla tíma sem nánast rústuðu lífskjörum bænda á tímabili, bóndinn tapar, neytandinn tapar og afurðastöðvar bænda fara í þrot og eða verða grátt leiknar. Enn muna bændur hvernig offramleiðslan lék efnahag þeirra og alla vondu umræðuna um sveitirnar. Því miður ríkir sundrung í sölu á lambakjöti til útlanda, en þar ættu bændur að standa að verki eins og einn maður og selja undir merki Íslands og hreinleikans.“
Hvetur ríkisstjórnina til að salta tollasamning
Hann skorar því á Sigurð Inga að finna „ásættanlega lausn“, með formanni Bændasamtakanna og að rísa gegn þröngum hópi í búgreinarfélögunum.“Bændurnir búa nú við óvissu við þær kjöraðstæður sem markaðurinn hefur búið þeim með mikilli neyslu, vinsældum afurðanna og gríðarlegri fjölgun ferðamanna. Ég skora á þessa ágætu menn að tefja sig ekki yfir umræðu sem ber sundrunguna í sér og tap og fátækt bænda. Hvað þá að láta sér detta í hug að bera fram búvörusamninga sem líkur benda til að verði felldir í almennri atkvæðagreiðslu. Ennfremur ber ríkisstjórninni að salta nýgerðan tollasamning og meta hann upp á nýtt að loknum búvörusamningum, láta hann liggja eða gera raunhæfar mótvægisaðgerðir til varnar íslenskri atvinnu á landsbyggðinni, en hann flytur mörg hundruð störf í iðnaði og landbúnaði frá Íslandi til ESB verði hann samþykktur óbreyttur.“