Ferðamannaiðnaðurinn á Íslandi sker sig mikið úr samanborið við hin Norðurlöndin. Hlutfall erlendra ferðamanna er almennt hæst á Íslandi þó að ferðamönnum hafi líka fjölgað víðar, eins og í Svíþjóð. Flestir ferðamenn fara þó til Danmerkur.
Fram kemur í yfirgripsmikilli skýrslu um stöðu Norðurlandanna sem birt var í gær, The State of the Nordic Region 2016, að hvergi annars staðar á Norðurlöndunum hafi fjöldi ferðamanna vaxið jafn mikið undanfarin ár og á Íslandi. Þar er tekið fram að hlutfallsleg fjölgun hafi verið mest á Suðurnesjum, 176 prósent, en það er að stórum hluta vegna staðsetningu alþjóðaflugvallarins í Keflavík og Bláa lónsins.
Suðurnesin næstefst á íslenska listanum
Höfðborgarsvæði hinna Norðurlandanna; Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar raða sér í efstu sætin þegar frammistaða landanna er metin. Einungis tvö íslensk svæði komast inn á lista efstu tuttugu sætanna, höfðuborgarsvæðið vermir tíunda sætið og Suðurnesin eru í því átjánda.
Bæði svæðin teljast hafa nokkuð góða möguleika varðandi íbúaþróun og eru yfir meðallagi þegar kemur að framtíðarmöguleikum efnahags og vinnumarkaðar. Önnur svæði á Íslandi eru í 26. til 41. sæti en samanborið við úttekt á árunum 2010 til 2015 eru Suðurnesin eina svæðið sem hefur bætt sína stöðu á meðan framtíðarsýn hinna hefur hrakað. Hlutfall þeirra sem búa í sveit er lægst á Íslandi af öllum Norðurlöndunum, sex prósent. Það er tuttugu prósent í Noregi, þar sem hlutfallið er hæst.
Eldgos og efnahagshrun gerðu góða hluti
Þá segir einnig í skýrslunni að þrátt fyrir þær áskoranir sem ferðaþjónustan á Íslandi stóð frammi fyrir vegna efnahagshrunsins árið 2008 og gossins í Eyjafjallajökli árið 2010, hefur ferðamannaiðnaðurinn vaxið gríðarlega hér á landi. Svo virðist sem það hafi náðst að snúa sér ferðaþjónustunni í hag.
Reykjavíkurhöfn var helsti viðkomustaður skemmtiferðaskipa á Íslandi á tímabilinu 2011 til 2014, en þangað komu 91 skip með 105 þúsund farþega. 73 þúsund farþegar komu til Akureyrar og 40 þúsund til Ísafjarðar. Alls staðar varð fjölgun á tímabilinu.