Norska skipafélagið Havila Shipping ASA tapaði samtals rúmlega 1,5 milljarði norskra króna á árinu 2015, eða um 23 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í ársreikningi Havila sem birtur var í gær. Tapið er að stærstu leyti til komið vegna þess að virði flota Havila, sem telur 28 skip, var fært niður um 21 milljarð króna. Félagið samdi við helstu lánadrottna sína um endurskipulagningu á skuldum sínum í lok síðasta árs, en eigendur skuldabréfa sem Havila hefur gefið út, höfnuðu þeim áformum í síðasta mánuði. Því hafa stjórnendur og aðaleigendur Havila sest aftur að samningsborðinu með kröfuhöfum til að reyna að komast að nýju samkomulagi. Á meðan greiðir félagið ekkert af skuldum sínum og ljóst er að það rambar á barmi gjaldþrots. Norskir greinendur telja að Havila eigi laust fé til að reka sig fram á haust.
Á meðal kröfuhafa Havila eru tveir íslenskir bankar, Íslandsbanki og Arion banki. Íslandsbanki tók þátt í sjö milljarða króna sambankaláni til félagsins sem veitt var í lok árs 2013. Í ársreikningi bankans fyrir árið 2015 kom fram að hann hefði hefði bókað virðisrýrnun á stöðu sína á lánum til fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. Ljóst er að sú rýrnun snýr að annars vegar að lánum til Havila og hins vegar til íslenska félagsins Fáfnis Offshore. Í reikningnum kom fram að eitt prósent af útlánasafni bankans var til fyrirtækja sem þjónusta olíuiðnaðinn. Alls voru útlán til viðskiptavina 665,7 milljarðar króna um síðustu áramót og því námu lán til geirans tæpum sjö milljörðum króna. Íslandsbanki vill ekki gefa upp hversu mikið bankinn hefur fært umrædd lán niður.
Arion banki lánaði Havila 4,5 milljarða króna í júlí 2014. Í ársreikningi bankans fyrir árið 2015 var framkvæmd verulega varúðarniðurfærsla til erlendra fyrirtækja í þjónustusamstarfsemi tengdri olíuleit í kjölfar erfiðleika á þeim markaði, á síðasta ársfjórðungi ársins 2015. Um er að ræða lánið sem bankinn veitti Havila. Ekki er tilgreint sérstaklega í ársreikningi Arion banka, sem birtur var í síðustu viku, um hversu mikið lánið til Havila var fært niður en þar kemur hins vegar fram að hrein virðisbreyting lána var 3,1 milljarður króna á árinu. Í afkomutilkynningu Arion banka sagði fram að niðurfærslurnar séu að mestu vegna lánsins til Havila og á lánum sem bankinn yfirtók frá AFL –sparisjóði á árinu 2015.
Samkvæmt ársreikningi voru lánin sem komu frá AFLi færð niður á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. Um þriggja milljarða króna varúðarniðurfærsla var færð á efnahagsreikning bankans á fjórða ársfjórðungi. Sú niðurfærsla er því að mestu leyti vegna lánsins til Havila og ljóst að bankinn reiknar með miklum afföllum vegna þess.
Svokallaður „spot-markaður“ vegna þjónustu við olíuleit í sjó, þar sem Havila starfar, hefur hrunið á undanförnum misserum samhliða lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu. Það var 115 dalir í júlí 2014 en er nú 34 dalir. Til að olíuleit í Norðursjó geti borgað sig þarf heimsmarkaðsverðið á olíu að vera að minnsta kosti 60 dalir á tunnu, eða nánast tvöfalt það sem það er í dag.