Fjármálaeftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu að verklag Landsbankans við söluna á 31,2 prósent hlut sínum í Borgun í nóvember 2014 hafi verið „áfátt og það heilt á litið ekki hafa verið til þess fallið að skila bestri niðurstöðu fyrir bankann. Með vísan til þess er það mat Fjármálaeftirlitsins að verklag bankans við sölu á eignarhlut hans í Borgun hafi ekki að öllu leyti samræmst eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum á fjármálamarkaði".
Stofnunin telur þó ekki tilefni til að grípa til frekari aðgerða að svö stöddu þar sem Landsbankinn hafi þegar tilkynnt, að eigin frumkvæði, að hann ætli að grípa til aðgerða vegna málsins. Þetta kemur fram í niðurstöðu athugunar Fjármálaeftirlitsins á viðskiptaháttum Landsbankans vegna sölunnar á Borgun sem birt var í dag.
Landsbankinn greindi frá því fyrr í dag að hann hefði ákveðið að breyta stefnu sinni og ferlum, sem tengjast sölu á eignum, meðal annars vegna harðrar gagnrýni í tengslum við Borgunar-málið.
Ekki selt í opnu ferli
Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í Borgun til félags í eigu stjórnenda fyrirtækisins og meðfjárfesta þeirra þann 25. nóvember 2014 fyrir 2,2 milljarða króna. Fjárfestahópurinn gerði fyrst tilboð í hlutinn í mars 2014. Hlutur Landsbankans, sem er að mestu í ríkiseigu, var ekki seldur í opnu söluferli. Öðrum mögulega áhugasömum kaupendum bauðst því ekki að bjóða í hlutinn. Kjarninn upplýsti um það þann 27. nóvember 2014 hverjir hefðu verið í fjárfestahópnum og hvernig salan hefði gengið fyrir sig.
Miðað við hefðbundna mælikvarða sem fjárfestar styðjast við í fjárfestingum þótti verðið lágt, hvort sem miðað er við fyrirtæki erlendis eða skráð fyrirtæki á Íslandi.
Fjármálaeftirlitið sendi erindi til Landsbankans vegna sölu á 31,2 prósent hlut í Borgun þann 3. desember 2014. Í erindinu var óskað eftir öllum upplýsingum í tengslum við söluna. Landsbankinn svaraði erindinu 9. desember og engar frekari athugasemdir eða viðbrögð komu frá Fjármálaeftirlitinu vegna málsins.
Frekari upplýsingar áttu hins vegar eftir að koma fram um söluna á hlut bankans í Borgun, sem leiddu til þess að eftirlitið hóf aftur athugun á starfsháttum Landsbankans í tengslum við söluna fyrr á þessu ári.
Salan á Visa Europe
20. janúar 2016 birti Morgunblaðið forsíðufrétt um að kaup Visa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun og öðru íslensku greiðslukortafyrirtæki, Valitor, á annan tug milljarða króna. Visa Inc. mun líkast til greiða um þrjú þúsund milljarða króna fyrir Visa Europe og það fé mun skiptast á milli þeirra útgefenda Visa-korta í Evrópu sem eiga rétt á hlutdeild í Visa Europe. Landsbankinn átti hlut í bæði Borgun og Valitor. Þegar bankinn seldi hlut sinn í Borgun gerði hann ekki samkomulag um hlutdeild í söluandvirði Visa Europe. Þegar hann seldi hlut sinn í Valitor í apríl 2015 gerði hann samkomulag um viðbótargreiðslu vegna þeirrar hlutdeildar Valitor í söluandvirði Visa Europe. Stjórnendur Borgunar hafa sagt að þeir hafi fyrst fengið upplýsingar um hugsanlegan ávinning fyrirtækisins vegna sölunar á Þorláksmessu 2015.
Í febrúar var svo greint frá því að Borgun býst við að fá 33,9 milljónir evra, um 4,8 milljarða króna, í peningum þegar Visa Inc. greiðir fyrir Visa Europe. Auk þess fær Borgun, líkt og aðrir leyfishafar innan Visa Europe, afhent forgangshlutabréf í Visa Inc. að verðmæti 11,6 milljónir evra, eða um 1,7 milljarðar króna. Þá mun Visa Inc. greiða leyfishöfum afkomutengda greiðslu árið 2020 sem mun taka mið af afkomu starfsemi Visa í Evrópu á næstu fjórum árum, en hlutdeild Borgunar af þeirri fjárhæð mun ráðast af viðskiptaumsvifum Borgunar sem hlutfall af heildarviðskiptaumsvifum allra seljenda hlutabréfanna á þessum 4 árum.
Því er ljóst að Borgun mun fá um 6,5 milljarða króna auk afkomutengdar greiðslu árið 2020 vegna sölu Visa Europe.
Vildu reka Steinþór
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, og bankaráð bankans hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir söluna á Borgun undanfarin misseri. Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhlut íslenska ríkisins í Landsbankanum, birti nýverið ítarlegt bréf sem það sendi bankaráði Landsbankans vegna Borgunarmálsins. Þar hafnaði hún nær öllum röksemdarfærslum sem Landsbankinn hefur teflt fram sér til varnar í Borgunarmálinu hafnað. Þar var enn fremur sagt að svör Landsbankans við þeirri gagnrýni sem sett hefur verið fram á framgöngu hans hafi „ekki verið sannfærandi“.
Í kjölfarið sendu fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans frá sér tilkynningu þar sem þeir sögðust ekki ætla að gefa kost á sér til endurkjörs á næsta aðalfundi bankans, sem haldinn verður 14. apríl næstkomandi. Á meðal þeirra er Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðsins. Ástæðan væri Borgunarmálið.
Í yfirlýsingunni sagði m.a. að stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins hafi boðað formann bankaráðs Landsbankans á fund áður en bréf stofnunarinnar vegna Borgunarmálsins var sent til Landsbankans föstudaginn 11. mars. Á þeim fundi, sem forstjóri Bankasýslunnar hafi verið viðstaddur var þeim skilaboðum komið á framfæri að „það eina sem dugi til sé að bankastjóranum verði sagt upp störfum auk þess sem formaður og varaformaður víki. Sú afstaða stjórnar Bankasýslunnar fékkst síðar staðfest. Þarna gengur Bankasýslan skrefi of langt. Það er hlutverk bankaráðs og Fjármálaeftirlitsins að meta hæfi bankastjórans. Við munum ekki taka þátt í skollaleik sem hvorki samrýmist meginreglum félagaréttar né góðum stjórnarháttum. Steinþór Pálsson er stefnufastur og öflugur stjórnandi; hreinn og beinn. Hann er leiðtogi bankans og hefur staðið sig með afbrigðum vel. Við teljum farsælast að hann stjórni bankanum áfram til góðra verka."
Steinþór sendi sjálfur frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist ekki ætla að hætta. Hann muni sem fyrr starfa með hagsmuni bankans að leiðarljósi. Bankasýslan hefur síðar hafnað því að uppsögn Steinþórs hafi verið til skoðunar hjá henni.
Landsbankinn hefur þegar tilkynnt að hann ætli í mál vegna sölunnar á hlut sínum í Borgun og að hann hafi þegar falið lögmönnum að undirbúa málsókn „til þess að endurheimta þá fjármuni sem bankinn fór á mis við í viðskiptunum.“