Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að hann og Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður Framsóknarflokksins, þurfi að ræða hvort að það gangi að ríkisstjórnin starfi áfram. Nýjar stjórnarmyndunarviðræður eru því framundan milli þeirri flokka sem þegar mynda ríkisstjórn landsins. Bjarni mun ekki gera kröfu um að verða forsætisráðherra heldur vilji hann tryggja farsæla lausn í samstarfi við Framsóknarmenn. Það sé mikilvægur þáttur í að endurnýja stjórnarsamstarfið að Framsóknarflokkurinn hafi gert þær breytingar sem gerðar hafa verið, og í felast að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson stígi til hliðar sem forsætisráðherra.
Bjarni sagði við fréttamenn á Bessastöðum í dag, eftir fund hans með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að hann líti svo á að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi sóst eftir þingrofsheimild fyrr í dag til að veifa framan í sig. Hann hafi svarað Sigmundi Davíð því að Sjálfstæðisflokkurinn óttaðist ekki að ganga til kosninga.
Bjarni sagði frá því að hann hefði greint Sigmundi Davíð frá því að það þyrfti að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin. Engum hafi dulist að það væri krafa um að Sigmundur Davíð myndi víkja. „Ég er ekki blindur." Það væri hins vegar óabyrgt að fara til kosninga núna.
Sigmundur Davíð hafi boðið tvo kosti í stöðunni, annað hvort óskoraðan stuðning við sig og áframhaldand ríkisstjórnarinnar eða þingrof. Bjarni hafi hins vegar séð fleiri kosti í stöðunni, meðal annars þann sem nú er að fæðast.
Í viðtali við RÚV sagði Bjarni enn fremur frá að Framsóknarflokkurinn hafi eindregið óskað eftir samtali við Sjálfstæðisflokkinn um að halda ríkisstjórnarstarfinu áfram. Hann þakkaði þar forseta Íslands fyrir að bregðast við beiðni Sigmundar Davíðs um þingrof með þeim hætti sem hann gerði.