Gagnagrunnur unninn upp í Panamaskjölunum verður opnaður í dag klukkan 18 að íslenskum tíma. Slóðina verður að finna á: https://offshoreleaks.icij.org. Það eru Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, sem standa að birtingunni sem inniheldur rúmlega 200 þúsund aflandsfélög sem koma fyrir í Panamagögnunum.
Hægt verður að leita í gagnagrunninum og gera sér betur grein fyrir umfangi þessara félaga. Í einhverjum tilfellum er hægt að fá upplýsingar um raunverulega eigendur aflandsfélaganna, er fram kemur á vef Reykjavik Media. Þá verða einnig birtar upplýsingar um 100 þúsund félög sem komu fyrir í öðru aflandsleka sem ICIJ rannsakaði árið 2013.
Fjöldi rannsóknarblaðamanna hefur farið í gegn um þann mikla fjölda gagna sem lekið var frá panamísku lögfræðistofunni Mossack Fonseca og metið hvað varði almenning og hvað ekki. Um er að ræða stærsta gagnaleka í sögunni, sem telur um 11,5 milljón skjöl; bankareikninga, tölvupósta, bréf, umslög, samninga, vegabréfsljósrit, símanúmer, heimilisföng og fleiri gögn. Slíkar upplýsingar verða ekki birtar í gegnagrunninum.
Samtökin hala áfram rannsóknum á gögnunum með samstarfsmiðlum sínum næstu vikur og mánuði.
Margt gerst á mánuði
Það er nú meira en mánuður síðan fyrstu upplýsingarnar birtust úr lekanum. Þýska blaðið Süddeutche Zeitung birti grein sem bar titilinn A Storm is Coming daginn sem fyrsti Kastljósþátturinn var frumsýndur, sunnudaginn 3. apríl síðastliðinn. Í greininni er farið ítarlega yfir þær íslensku stjórnmálatengingar sem fundust í Panamaskjölunum; að nöfn forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra hafi öll tengst aflandsfélögum í gegn um Mossack Fonseca.
En það voru ekki bara ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem höfðu tengst aflandsfélögum í skattaskjólum. Nöfn þriggja borgarfulltrúa, tveggja starfandi, komu líka fram í þættinum þetta kvöld: Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði af sér nokkrum dögum síðar, og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti borgarstjórnarflokks Framsóknar og flugvallarvina, fór í leyfi. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, kom einnig fram í skjölunum.
Kjarninn og Stundin, í samstarfi við Reykjvik Media, fjölluðu einnig um tengsl Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur við aflandsfélög. Kastljós tók annan snúning á skjölunum og afhjúpaði þar framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins, Hrólf Ölvisson, sem sagði af sér stuttu síðar, fyrrverandi gjaldkera Samfylkingarinnar, Vilhjálm Þorsteinsson, sem sagði sig úr stjórn Kjarnans í kjölfarið og hafði áður sagt af sér sem gjaldkeri, tvo framkvæmdastjóra lífeyrissjóða, Kára Arnór Kárason og Kristján Örn Sigurðsson, sem báðir sögðu af sér, og svo Helga S. Guðmundsson og Finn Ingólfsson.
Þá er skemmst frá því að segja að greint var frá því skömmu síðar forsetafrúin Dorrit Moussaieff hefði einnig rík tengsl við aflandsfélög, en Ólafur Ragnar Grímsson hafði áður harðneitað því. Dorrit útskýrði það í kjölfarið að hún ræddi fjármál sín ekki við Ólaf.
Reykjavik Media hefur óskað eftir aðstoð almennings vegna næstu frétta - sem fjalla um sjávarútveginn á Íslandi.