Panamíska lögfræðifyrirtækið Mossack Fonseca ætlar að loka útibúum sínm á bresku eyjunum Jersey, Mön og á Gíbraltar. Viðskiptavinum á svæðinu verður áfram sinnt, þó að skrifstofum sé lokað. Fyrirtækið greindi frá þessu á Twitter í gærkvöldi.
Ósátt við fjölmiðlaumfjöllun
Þar sendir Mossack Fonseca einnig frá sér yfirlýsingu vegna fjölmiðlaumfjöllunar undanfarnar vikur. Þar segir að nýlegar fréttir hafi birt ónákvæma mynd af þjónustunni sem fyrirtækið veiti, þrátt fyrir að starfsmenn þess hafi reynt að leiðrétta það eftir bestu getu.
Fyrirtækið segir á Twitter að það haldi áfram að veita viðskiptavinum sínum þjónustu þrátt fyrir að skrifstofum þeirra verði lokað. Ákvörðunin sé tekin með miklum trega eftir rúmlega tuttugu ára veru á stöðunum. Fyrirtækið ætli að sameina þjónustuskrifstofur sínar og sé það gert með mikilli sorg.
Höfuðstöðvar Mossack Fonseca eru í Panama og má segja að fyrirtækið hafi orðið heimsfrægt í byrjun apríl þegar meira en 11 milljón skjölum var lekið þaðan um aflandsfélög fólks um allan heim.