Heildarfjöldi umsækjenda um vernd á fyrstu fimm mánuðum ársins er orðinn 235 en á sama tímabili í fyrra var hann 64. Þetta þýðir að 367 % fjölgun er á milli ára eða tæplega fjórföld. Þetta kemur fram í frétt Útlendingastofnunar.
„Ef horft er til síðustu mánaða ársins 2015 sést að fjöldi umsókna er í takt við þróunina sem hófst síðastliðið haust. Sú þróun átti sér ekki bara stað á Íslandi heldur um alla Evrópu,“ segir Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar. Hún segir að allt eins megi gera ráð fyrir að umsóknum um hæli muni fjölga eftir því sem líður á árið en spá Útlendingastofnunar geri ráð fyrir á bilinu 600 til 1000 umsóknum á árinu.
Kjarninn fjallaði um ný útlendingalög á dögunum en gert var grein fyrir nýjum lögum um útlendinga og markmiðum þeirra á hádegisfundi í Háskóla Íslands. Frummælendur fjölluðu efnisleg um lögin, kosti og galla. Lögin voru samþykkt þann 2. júní síðastliðinn en þau taka gildi um næstu áramót 2016-2017.
Flestir umsækjendur frá Balkanlöndunum
Athygli vekur að flestir umsækjendur í maí komu frá Albaníu og Makedóníu en alls voru 60% umsækjenda frá Balkanlöndunum. Karlar voru 66% umsækjenda og fullorðnir einstaklingar 77%.
„Útlendingastofnun hefur ekki greint ástæðurnar að baki fjölgun hælisleitenda frá Albaníu og Makedóníu en þær eru vafalítið margþættar,“ segir Þórhildur. Hún segir að ríkisborgarar Albaníu og Makedóníu þurfi til dæmis ekki vegabréfsáritun til að ferðast til Íslands og eigi því tiltölulega auðvelt með að ferðast hingað. Skortur á vinnuafli á Íslandi eigi síðan eflaust sinn þátt í því hvers vegna margir leita hingað en stór hluti umsækjenda frá löndum Balkanskagans komi hingað í leit að atvinnu og bættum efnahagslegum kjörum.
„Umsóknir á slíkum grunni eru þó tilhæfulausar enda er hæliskerfið neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi og á ekki möguleika á viðunandi vernd og úrræðum í heimaland,“ segir hún.
Margar umsóknir í maí
56 einstaklingar frá 17 löndum hafa sótt um vernd hérlendis í maí síðastliðnum. Það kemur einnig fram hjá Útlendingastofnun að niðurstaða hafi fengist í 75 mál á sama tíma. 44 mál voru tekin til efnislegrar meðferðar og 18 mál voru afgreidd með endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Fjórir umsækjendur höfðu þegar fengið vernd annars staðar og níu umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka.
Af þeim 44 málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk níu málum með ákvörðun um veitingu verndar, viðbótarverndar eða dvalarleyfis af mannúðarástæðum, en 35 lauk með synjun. 14 efnismál voru afgreidd á grundvelli forgangsmeðferðar í maí.
Þann 31. maí síðastliðinn voru 153 umsóknir um vernd í vinnslu hjá Útlendingastofnun.