Leik Íslands og Ungverja lauk með 1-1 jafntefli í Marseilles í dag. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði mark úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik en Ungverjum tókst að jafna þegar lítið var eftir af leiknum. Alfreð Finnbogason náði svo að krækja í aukaspyrnu, rétt fyrir utan vítateig, þegar fáeinar sekúntur voru eftir af leiknum. Íslendingum tókst hins vegar ekki að skora.
„Mjög svekkjandi,“ sagði Gylfi Þór í viðtali eftir leikinn. „Þetta var mikill skellur fyrir okkur. Við vorum með þrjú stig í hendi.“
Ungverjarnir hljóta að vera ánægðir með þessi úrslit eftir leikinn því Ísland hélt vel á spöðunum allan leikinn og hélt sínu marki hreinu þar til fyrirgjöf endaði í tá Birkis Más Sævarssonar og endaði í markinu. Birkir Már gat lítið í málinu gert enda gerði Ungverji harða sókn að boltanum fyrir aftan hann.
Eftir þennan leik er Ísland með tvö stig í F-riðli og í öðru sæti á eftir Ungverjum sem eru með fjögur stig. Austurríki og Portúgal leika á eftir klukkan 19. Ísland á einn leik eftir í riðlakeppninni gegn Austurríki á miðvikudaginn. Sá leikur verður leikinn í París.
Ísland getur enn tryggt sér þáttöku í 16 liða úrslitum Evrópumeistarmótsins. Úrslit leiks Portúgal og Austurríki skipta auðvitað máli. Portúgal er með eitt stig í riðlinum eftir jafntefli gegn Íslandi.