Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hvatti bresk stjórnvöld til að útskýra snarlega hvernig þau hyggjast móta framtíð sína með Evrópusambandinu. Rúmlega helmingur bresku þjóðarinnar kaus úrsögn úr sambandinu í Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni í síðasta mánuði. Theresa May hefur verið valin af Íhaldsflokkinum til að taka við af David Cameron sem forsætisráðherra landsins á morgun.
„Brexit þýðir Brexit,“ sagði May við fjölmiðla fyrir framan þinghúsið í London þegar hún flutti sigurræðu sína þegar ljóst var að hún yrði næsti leiðtogi Íhaldsflokksins. „Við ætlum ekki að reyna nein brögð til að halda áfram í Evrópusambandinu, tryggjum engar varaleiðir um bakdyr og það verður engin önnur þjóðaratkvæðagreiðsla.“
Merkel sagði stuðningsmönnum sínum í Þýskalandi í gær að Bretar myndu ekki fá að týna til það sem þeim þætti gott við ESB og halda aðgengi sínu að því. „Þetta verða erfiðar viðræður við Bretland,“ sagði hún.
„Evrópuríkin 27 sem eftir standa þurfa að vernda sína hagsmuni,“ sagði Merkel í morgun. Hún bætti við að vilji Bretland halda aðgengi sínu að frjálsa markaðinum þurfi Bretar að gangast við grunnskilyrðum sambandsins, hinu svokallaða fjórfrelsi, og að það verði Bretum ómögulegt að hafa frjálsa fólksflutninga fyrir utan sviga.
Aðgengi að frjálsa markaðinum er bresku efnahagslífi mikilvægt. Breskir stjórnmálamenn sem studdu úrsögn í þjóðaratkvæðagreiðslunni lögðu á það áherslu að Bretar gætu gert samning við ESB þar sem landið hefði enn aðgengi að frjálsa markaðinum en gæti takmarkað fjölda þeirra sem vilja flytja til Bretlands og starfa þar.
Chris Grayling, leiðtogi í neðri deild breska þingsins og stuðningsmaður Theresu May, lét hafa eftir sér að Bretum lægi ekkert á að skilja við Evrópusambandið. Í Lisabon-sáttmálanum fjallar grein 50 um hvernig aðildarríki geta hætt í ESB og má það ferli ekki taka lengri tíma en tvö ár. Bresk stjórnvöld þurfa hins vegar að óska eftir úrsögn áður en klukkan fer að tifa og það hafa þau ekki enn gert. Þess er vænst að May taki við embætti forsætisráðherra á morgun, miðvikudag.
Grayling sagð Sky News-fréttastofunni að úrsögn yrði ekki óskað fyrr en Bretland væri tilbúið til þess. „Við virkjum ekki 50. greinina fyrr en við erum tilbúin. Það mikilvægasta sem við gerum núna verður að vera í þjóðarhag,“ sagði hann og dró um leið úr væntingum Evrópusambandsins um að með May í forsæti yrði óvissunni eytt snarlega.
Evrópusambandið er einnig að safna vopnum sínum fyrir viðræðurnar framundan. Allt lítur út fyrir að ESB ætli að nota Skotland sem lóð á sínar vogaskálar, enda kusu Skotar með áframhaldandi veru í sambandinu. Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, sagði það strax eftir að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar voru ljósar að mjög líklega myndi Skotland krefjast annarar atkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Bretlandi. Hún hefur svo flogið til Brussel og rætt við evrópska stjórnmálamenn.