Sex auðugustu lönd heims taka aðeins á móti 8,88 prósent flóttafólks í heiminum. Samanlögð landsframleiðsla þessara sex auðugust landa nemur 56,6 prósent samanlagðrar landsframleiðslu allra ríkja heims. Nágrannaríki stríðshrjáðra landa á borð við Sýrland taka á móti helmingi alls flóttafólks í heiminum en samanlögð landsframleiðsla þeirra landa er 1,9 prósent af framleiðslu alls heimsins.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Oxfam, samtökum 18 stofnanna sem starfa í 94 löndum um allan heim til að finna lausn á fátækt og ranglæti í heiminum. Ríkustu löndin sex, Bandaríkin, Kína, Japan, Þýskaland, Bretland og Frakkland hafa samtals tekið á móti 2.119.264 flóttamönnum. Þýskaland hefur tekið á móti flestum eða 736.740; það er um það bil helmingur af því sem hin löndin fimm hafa gert samanlagt.
Aldrei hafa fleiri þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðs, ofbeldis eða ofsókna síðan flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hóf að skrá fjölda flóttafólks í heiminum. Í lok árs 2015 voru 65,3 milljón manns á hrakningum. Mikill meirihluti þessa fólks, eða um 40,8 milljónir, er á flótta í eigin landi, þe. hafa ekki lagt á flótta til annarra landa. Í skýrslu flóttamannastofnunarinnar um málefni flóttafólks árið 2015 er bent á að ef þessi hópur væri þjóð væri hún í 21. sæti yfir stærstu þjóðir í heimi. 3,2 milljónir hafa óskað eftir hæli í öðrum löndum og bíða ákvörðunar iðnvæddra þjóða.
Í skýrslu Oxfam er bent á að skylda ríkja til að veita þessu fólki skjól, mat og heilbrigðisþjónustu, auk starfa og menntunar, fellur heldur á fátækari lönd og er í ósamræmi við ríkidæmi landanna. Mörg þeirra landa sem neyðast til að taka á móti flóttafólkinu eiga í vandræðum með að veita sínu eigin fólki mannsæmandi tækifæri eða fórna stöðugleika í landinu til að taka á móti flóttafólki.
Helmingur flóttafólks, þe. þeirra sem lagt hafa á flótta frá heimalandi sínu, — alls 21,3 milljónir í lok árs 2015 — hefur komist undir verndarvæng stjórnvalda í Jórdanía, Tyrklandi, Palestínu, Pakistan, Líbanon og Suður-Afríku. Samanlagt bera þessi lönd ábyrgð á 1,9 prósent landsframleiðslu allra landa heims.
Sex ríkustu lönd í heimi og fjöldi flóttafólks*
- Bandaríkin - 559.370 manns
- Kína - 301.729 manns
- Japan - 16.305 manns
- Þýskaland - 736.740 manns
- Bretland - 168.937 manns
- Frakkland - 336.183 manns
- Samtals - 2.119.264 manns eða 8,88% af fjölda flóttafólks í heiminum.
Sex lönd sem taka á móti mestum fjölda flóttafólks**
- Jórdanía - 2.806.414 manns
- Tyrkland - 2.753.760 manns
- Palestína - 2.051.096 manns
- Líbanon - 1.535.662 manns
- Suður-Afríka - 1.217.708 manns
- Samtals - 11.932.244 manns eða 50.02% af fjölda flóttafólks í heiminum.
*Ríkustu löndin bera ábyrgð á 56,6% af samanlagði landsframleiðslu allra ríkja heims.
**Löndin bera ábyrgð á 1.9% af samanlagðri landsframleiðslu allra ríkja heims.
Búist við 1.000 hælisumsóknum á Íslandi í ár
Á Íslandi hefur fjöldi umsókna um hæli fjölgað í takti við aukinn fjölda flóttafólks í heiminum. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2016 var fjöldi umsækjenda um vernd orðinn 274 og hafði þrefaldast frá árinu áður. „Ef horft er til síðustu mánaða ársins 2015 sést að fjöldi umsókna er í takt við þróunina sem hófst síðastliðið haust. Sú þróun átti sér ekki bara stað á Íslandi heldur um alla Evrópu,“ sagði Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í samtali við Kjarnann 20. júní. Hún bjóst við því að umsóknum um hæli muni fjölga eftir því sem líður á árið og hugsanlega verða nærri 1.000 í ár.
310 mál umsækjenda um vernd voru afgreidd á fyrri hluta ársins, sem eru næstum jafnmörg mál og voru afgreidd allt árið í fyrra. Af þessum 310 málum var um helmingur, eða 159 mál, tekinn til efnislegrar meðferðar. Af þessum 159 var 106 synjað en 53 einstaklingar fengu vernd, viðbótarvernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Sautján einstaklingar frá Írak fengu vernd hér, tíu frá Íran og níu frá Sýrlandi. Fimm Afganir fengu vernd á Íslandi. Af þeim sem var synjað um vernd hérlendis voru 60 Albanir og 21 frá Makedóníu. Fjórum Kósóvó-búum og fjórum Serbum var neitað um vernd, sem og þremur Úkraínumönnum. Einstaklingum frá Tyrklandi, Nígeríu, Marokkó, Króatíu, Íran og Afganistan var neitað um vernd á Íslandi, sem og einum ríkisfangslausum einstaklingi.
Ný útlendingalög voru samþykkt á Alþingi 2. júní síðastliðinn. Haft var eftir Unni Brá Konráðsdóttur, formanni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, í Kjarnanum 15. júní að nýju lögin væru til þess að skýra og skilgreina hlutverk stjórnvalda í þessum málaflokki. Ekki væri verið að semja lögin með það í huga að hafa eftirlit með útlendingum, eins og áður hafði verið gert, heldur til þess að veita fólki réttindi. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka komu að gerð nýju laganna.
Ísland er meðal ríkustu landa í heimi, sé miðað við íbúafjölda, þe. færri deila heildarlandsframleiðslu Íslands en til dæmis svipað stóru hagkerfi. Ísland er í 20. sæti á lista World Bank yfir mestu landsframleiðslu á hvern íbúa í heimi, rétt á undan Belgíu. Sem dæmi má benda á heildarstærð íslenska hagkerfisins er á stærð við Bosníu. Þar búa rúmlega þrjár og hálf milljón manns og er landið þess vegna í 101. sæti á lista World Bank yfir landsframleiðslu á hvern íbúa.
Viðbrögðin ekki rétt
Samkomulag Evópuríkja og Tyrklands um takmörkun á flóttamannastraumnum til Evrópu hefur verið umdeildur. Með samkomulaginu varð fjöldi fólks fastur í Grikklandi, oft óaðvitandi um lagalega stöðu sína. Með samningnum var Evrópu lokað við syðri landamæri Tryklands. Þessi aðgerð hefur hrundið af stað dómínóáhrifum í heiminum; Keníumenn segjast nú eiga rétt á því að loka landinu sínu fyrir Sómölum sem flýja ástandið þar í landi. Allt er þetta, að mati skýrsluhöfunda Oxfam, þvert á þá alþjóðasamninga sem ríkja um málefni flóttafólks.
„Allar ríkisstjórnir hafa, að sjálfsögðu, rétt til þess að tryggja öryggi lands síns. En það verður að vera hægt að tryggja án þess að alþjóðasamningar um öryggi flóttafólks séu brotnir,“ segir í skýrslu Oxfam. „Í hvert sinn sem stjórnvöld snúa bakinu við flótafólki setja þau berskjaldaðasta fólk í heimi í hættulega og ógnvænlega stöðu.“
Og vandi þeirra sem finna sér skjól er oft sá að hælisleitendur mega ekki vinna fyrir sér. Séu hælisleitendur gripnir við það eitt að geta átt í sig og á geta þeir sumstaðar átt hættu á að vera vikið úr landi. Börn á flótta eiga sumstaðar ekki einu sinni kost á að fara í skóla, þannig að „heilu kynslóðunum er neitað um menntun,“ sé orðrétt haft upp úr skýrslu Oxfam.
Margir þeirra sem eru á flótta geta ekki einu sinni hugsað sér að snúa nokkurntíma aftur til heimalandsins. Þar er yrði einfaldlega enn hættulegra fyrir þetta fólk að vera.