Syrgendur í Nice hafa búið til einskonar andhelgidóm á staðnum þar sem fjöldamorðinginn Mohamed Lahouaiej Bouhlel var skotinn til bana af lögreglumönnum á fimmtudagskvöld í síðustu viku. Bouhlel var stöðvaður eftir að hafa myrt 84 manns sem fögnuðu þjóðhátíðardegi Frakka við ströndina í Nice. Frá þessu er greint á vef Sky News.
Skammt frá þessum andhelgidómi hefur fólk lagt blóm, tuskudýr, kerti og aðra fallega muni til minningar um fólkið sem lést í árásinni. Meira en hundrað manns slösuðust í árásinni, sumir alvarlega, og liggja enn á sjúkrahúsi.
Vegfarendur um Promenade des Anglais-breiðstrætið í Nice, þar sem voðaverkin voru framin, hafa safnað rusli, grjóti og níðorðum í haug þar sem Bouhlel var stöðvaður og skotinn til bana af lögreglu. Þeir sem hafa engu að kasta í hauginn hrækja á staðinn.
Lögregla rannsakar enn atburðina á Bastilludaginn, þjóðhátíðardag Frakka, og grenslast fyrir um fortíð árásarmannsins. Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á verknaðinum en franska lögreglan vill ekki segja hvort það sé rétt enda virðist fátt tengja Bouhlel við hryðjuverkasamtökin. Það er heldur líklegra að Bouhlel hafi átt við andleg veikindi að stríða.
Saksóknarinn Francois Molins hefur yfirumsjón með rannsóknum á hryðjuverkum í Frakklandi. Hann segir ættingja og vini árásarmannsins hafa lýst honum sem „einhverjum sem stundaði ekki múslimska trúarsiði, át svínakjöt, drakk áfengi, notaði lyf og stundaði óbeislað kynlíf.“ Vísbendingar hafi hins vegar komið fram um að hann hafi haft „skýran áhuga á rótækum aðgerðum og heilögum stríðshreyfingum (jihad)“ sem skilji rannsakendur ekki í neinum vafa um að árásin hafi verið skipulögð.