Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur beint þeim tilmælum til Angelu Merkel, kanslara Þýsklands, að hún muni þurfa meiri tíma til að undirbúa úrsögn Breta úr Evrópusambandinu. May er nú í Berlín á sínum fyrsta fundi með Merkel eftir að hún varð forsætisráðherra á dögunum.
Merkel hefur hvatt nýja ríkisstjórn Bretlands til að ganga hratt til verks og eyða óvissunni um Brexit snarlega. Bretar kusu úrsögn úr ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu í lok júní. Bresk stjórnvöld hafa enn ekki sent inn formlega úrsagnarbeiðni til ráðamanna í Brussel.
Talið er að fundur May og Merkel muni að mestu snúast um útgöngu Bretlands úr ESB, flóttamannavandan í Evrópu og hryðjuverkaógn. May hefur þegar óskað eftir því að Bretland gegni ekki formennsku í Evrópuráðinu á næsta ári, en röðin er nú komin að Bretum, en hvert aðildarríkjanna 28 gegna þessu hlutverki í sex mánuði í senn.
Eftir fund May með Merkel flýgur hún til Parísar þar sem hún hittir Francois Hollande, forseta Frakklands. Á báðum fundum mun May útskýra hvers vegna úrsögnin taki svo langan tíma. Samkvæmt heimildum The Guardian er það vegna þess að enn eiga bresk stjórnvöld eftir að ráðfærasig við Skota, Walesverja og Norður-Íra um hvernig haga eigi framhaldinu.
Málefni innflytjenda eru Theresu May mjög hugleikin. Hún sagði í sérstökum spurningatíma til forsætisráðherra á breska þinginu í dag að minnka þyrfti straum innflytjenda til landsins. Það var eitt af helstu baráttumálum þeirra sem börðust fyrir úrsögn úr ESB í kosningabaráttunni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.