Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti lýsti í gærkvöldi yfir þriggja mánaða neyðarástandi í landinu. Hann tilkynnti þetta eftir að hafa hitt yfirmenn öryggismála og ráðamenn í Ankara, höfuðborg Tyrklands, í gær. Hreinsunum er haldið áfram í landinu eftir valdaránstilraunina á föstudag.
Erdogan tilkynnti um neyðarástandið í sjónvarpsviðtali í gærkvöld við arabísku sjónvarpsstöðina Al-Jazeera. Þessar breytingar auðvelda forsetanum að leita uppi alla þá sem hann grunar um að hafa tekið þátt í valdaránstilrauninni. Erdogan undirstrikaði þó í viðtalinu að reglur lýðræðisins yrðu enn virtar.
Guardian greinir frá því að samkvæmt 121. grein stjórnarskrár Tyrklands er neyðarástandi lýst. Þingið þarf að samþykkja beiðnina og það má ekki vara lengur en í hálft ár. Það veitir ráðamönnum, undir boðvaldi forsetans, vald til að koma á lögum sem eru sniðin að ástandinu.
Matsfyrirtækið Standard and Poor's lækkaði í gær lánshæfiseinkunn tyrkneska ríkisins. Matið lækkar úr BB plús í BB með neikvæðum horfum og færir matið þar með í átt að ruslflokki. Þá lokuðu tyrknesk stjórnvöld á aðgang að síðu Wikileaks í gær, nokkrum klukkustundum eftir að samtökin láku um 300.000 tölvupóstum frá Réttlætis- og uppbyggingarflokknum, AKP, sem er í meirihluta á þinginu. Yfir 50.000 manns hafa verið handteknir eða reknir úr störfum í Tyrklandi síðan á föstudag.