Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig mestu fylgi í nýrri kosningaspá sem gerð var fimmtudaginn 28. júní og er nú með 25,4 prósent fylgi. Píratar mælast sem fyrr með mest fylgi og eru með 25,6 prósent. Ekki er marktækur munur á fylgi þessara framboða í nýjustu kosningaspánni.
Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Viðreisn mælast í þetta sinn öll með 8,7 prósent stuðning í kosningaspánni. Það er töluvert minna en Vinstri græn sem myndu hljóta 16 prósent atkvæða á landsvísu ef gengið yrði til kosninga nú.
Enn hefur ekki verið ákveðið hvenær kjördagur verður í fyrirhuguðum alþingiskosningum sem ráðamenn hafa sagt að fari fram í haust. Bæði Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafa sagt að kosningarnar muni fara fram.
Björt framtíð mælist enn minnst þeirra framboða sem eiga nú þegar fulltrúa á Alþingi og er með 3,9 prósent í kosningaspánni. Ætla má að framboð þurfi um það bil fimm prósent fylgi á landsvísu í alþingiskosningum til að ná kjöri. Önnur framboð eru samanlagt með stuðning þrjú prósent kosningabærra Íslendinga.
Nýjasta könnunin sem vegin er í kosningaspárlíkaninu er könnun Gallup sem birtist í gær. Hún hlýtur meira en helmingsvægi í nýjustu kosningaspánni og helgast það einkum af tveimur ástæðum; Gallupkönnunin er gerð yfir langt tímabil, frá 30. júní til 29. júlí og var úrtaksstærðin mun stærri en í örðum könnunum sem liggja fyrir um fylgi framboða til Alþingis.
Um nýjustu kosningaspána
Nýjasta kosningaspáin var gerð 28. júlí og er byggð á þremur nýjustu könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi framboðanna sem hyggjast bjóða fram í kosningunum í haust. Kannanirnar sem liggja til grundvallar kosningaspánni eru eftirfarandi:
- Þjóðarpúls Gallup 30. júní til 29. júlí (vægi 52,0%)
- Skoðanakönnun MMR 15. júlí til 22. júlí (vægi 28,0%)
- Skoðanakönnun MMR 27. júní til 4. júlí (vægi 20,0%)
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.