Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS), segir sameiningar og samstarf á markaði með mjólkurafurðir hafa skilað í heild um 30 króna hagræðingu á lítra og sparað neytendur samtals um 2,5 milljarða króna á ári. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Samkeppniseftirlitið úrskurðaði í markaðsmisnotkunnarmáli MS í byrjun júní og sektaði fyrirtækið um 480 milljónir króna fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum.
MS hefur kært úrskurðinn til áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Ari segist einfaldlega vera ósammála ýmsum fullyrðingum úrskurðarins og segir fyrirtækið ekki hafa ástæðu til annars en að „fara að réttum lögum“ og að MS hafi engan hag af því að keppinautum á markaði með mjólkurafurðir fækki.
„MS er ekki rekið með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi. Arðsemiskrafan sem við vinnum eftir væri ekki talin viðunandi í almennum rekstri,“ segir Ari og segir að besta rekstrar á fyrirtækisins hafi verið árið 2007 þegar 250 milljóna hagnaður fékkst af rekstrinum. „Sú lagaumgjörð sem við vinnum eftir var ekki sett til höfuðs neytendum, þvert á móti var hún sett í þeirra þágu. Það var verið að reyna að finna lausn á því verkefni að koma vörunni á markað með sem minnstum kostnaði. Hugsunin var að lækka verð til neytenda.“
Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins er MS sagt hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með því að selja keppinautum hrámjólk til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS og aðilar tengdir fyrirtækinu fengu hráefni undir kostnaðarverði.
Samkeppniseftirlitið sektaði MS upphaflega fyrir umrædd brot í september 2014. Þá var sektin 370 milljónir króna. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála komst að þeirri niðurstöðu í desember 2014 að fella yrði úrskurðinn úr gildi, vegna þess að MS upplýsti ekki eftirlitið um samning á milli fyrirtækisins og Kaupfélags Skagfirðinga, sem á hlut í MS og er einn þeirra aðila sem fékk hrámjólk á lægra verði. MS lagði samninginn ekki fram fyrr en við málflutning fyrir áfrýjunarnefndinni, þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hefði ítrekað beðið um skýringar og gögn frá fyrirtækinu.
Ljóst er að sektin sem MS hefur nú kært mun hafa veruleg áhrif á rekstur MS, en fyrirtækið tapaði 330 milljónum króna í fyrra. Það tap var tilkomið vegna þess að framleiðsla umfram markaðsþarfir innanlands var sjö til átta milljón lítrar. Þ.e. framleiðendurnir, bændur, framleiddu meiri mjólk en nauðsynlegt var og MS þurfti að kaupa hana af þeim.
Í viðtalinu segir Ari afkomu bænda á uppboðsmarkaði með mjólk verða mun ótryggari en í núverandi skipulagi. MS hafi tekið á sig „miklar skuldbindingar um að kaupa alla mjólk á sama verði af bædnum hvar sem er á landinu og innheimta sama flutningskostnað. Án þess lagaumhverfis sem mjólkuriðnaður býr við myndi ekkert eitt samkeppnisfyrirtækjanna taka að sér að sækja mjólkina á afskekktustu bæina og greiða sama verð. Eða bjóða vörur um allt land á sama heildsöluverði. Afkoma bænda yrði miklu ótryggari á þeim uppboðsmarkaði.“
Að mati Ara mun það hafa mikil áhrif ef leið Samkeppniseftirlitsins verði farin í þessum efnum þá muni kúabúskapur á Íslandi dragast saman um „einhverja tugi milljóna lítra eða kannski um þriðjung frá því sem nú er.“ Slíkar breytingar á kerfinu eigi að ræða á Alþingi en ekki vera að frumkvæði einstaka stofnanna eða stjórnenda þeirra.