Skýrsla sérfræðihóps japanskra stjórnvalda á G20 fundinum í Hangzhou í Kína sýnir glögglega að forsvarsmenn japanskra fyrirtækja, einkum bílaframleiðenda og banka, hafa miklar áhyggjur af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og þeirri óvissu sem sú staða getur skapað fyrir þróun efnahagsmála í landinu.
Japan er iðnaðarstórveldi og hefur lengi verið með sterkt viðskiptasamband við Bretland. Um 140 þúsund starfsmenn vinna hjá japönskum fyrirtækjum í Bretlandi, og gæti farið svo að þessi fyrirtæki ákveði að vera með starfsemi sína í öðrum löndum. Í skýrslunni er enn fremur sagt, að Brexit varði Japan miklu og það eigi ekki aðeins við um einstök fyrirtæki heldur einnig japanska hagkerfið í heild.
Eitt þeirra fyrirtækja sem á mikið undir starfsemi í Bretlandi er Nissan en hönnunar- og þróunarvinna fyrirtækisins er staðsett í Bretlandi. Fjárfestingabankinn Nomura er einnig með stóra starfsstöð í London og mörg fleiri fyrirtæki, eins og Honda, Mitsubishi og Daiwa, eru öll með starfsemi í Bretlandi. Um helmingur af allri fjárfestingu Japans í Evrópu hefur farið í gegnum Bretland, af því er fram kemur í skýrslunni.
Það sem einkum veldur áhyggjum er hvað það er sem muni taka við þegar Bretland er farið úr Evrópusambandinu, og hversu hratt sé hægt að vinna að nýjum viðskiptasamningum og á hvaða forsendum þeir muni byggja. Í skýrslunni er mikið lagt upp úr því að japönsk stjórnvöld, eins og önnur ríki sem hafa hagsmuni í Bretlandi, fái að fylgjast náið með gangi mála þegar kemur að pólitísku samtali Bretlands og Evrópusambandsins, og áhersla lögð á að hraða vinnu eins og kostur er. Óvissan ein valdi tjóni og geri langtímaáætlanir fyrirtækja og þjóðríkja, þegar Bretland og breskur markaður eru annars vegar, erfiðar.