Rússneskir tölvuhakkarar, undir viðurnefninu Fancy Bears, komust yfir gögn um lyfjainntöku bandarískra íþróttamanna á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu, og segja í opinberun sinni að gögnin sýni ótvírætt að „bandarískir íþróttamenn komist upp með að svindla“.
Alþjóðalega lyfjaeftirlitið (WADA) hefur harðlega gagnrýnt tölvuinnbrotið og birtinguna á gögnunum. Jafnframt segir eftirlitið í yfirlýsingu, sem vitnað er til í umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC, að það sé ekki til þess fallið að auka traust á rússneskum yfirvöldum og íþróttahreyfingunni í Rússlandi, en eins og kunnugt er þá var fjölmörgum rússneskum íþróttamönnum meinað að keppa í Ríó eftir að upp komst um kerfisbundið lyfjamisferli í rússnesku íþróttahreyfingunni, sem stjórnvöld þar í landi vissu um og skipulögðu.
Ekki voru þó allir rússneskir íþróttamenn þátttakendur í misferlinu.
Í gögnunum sem rússnesku hakkararnir komust yfir segir meðal annars að sumir bandarísku íþróttamannanna, þar á meðal fimleikadrottningin Simone Biles tenniskonurnar og Serana og Venus William, hafi neitt ólöglegra lyfja en komist upp með það, þar sem það hafi verið samþykkt. Í gögnunum kemur einnig skýrt fram, að íþróttamennirnir hafi farið eftir reglum, og notkun lyfja hafi verið í samræmi við læknisráð á hverjum tíma.
Biles tjáir sig um málið á Twitter-síðu sinni, og segist þurfa á lyfjum að halda vegna þess að hún sé með ADHD og hafi tekið inn lyf sökum þess frá því hún var krakki. Hún ítrekar síðan að hún hafi ekkert rangt gert og styðji heiðarlega framgöngu í íþróttum í hvívetna. Það sama hafa forsvarsmenn íþróttahreyfingarinnar í Bandaríkjunum gert, og segja tölvuárásina og birtinguna á gögnunum, undir því yfirskini að íþróttafólkið hafi sýnt af sér óheiðarleika, vera „heigulshátt“ af verstu sort.
Travis Tygart, yfirmaður lyfjaeftirlitsins í Bandaríkjunum, segir að íþróttafólkið hafi gert allt eðlilega og heiðarlega, og að lyfjainntakan hafi verið í fullu samræmi við lög og reglur.
Stjórnvöld í Rússlandi hafa alfarið neitað því að hafa verið viðrin tölvuinnbrotið. Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, sagði ásakanir um að rússnesk stjórnvöld hafi komið að innbrotinu verða fjarstæðukenndar og í engu samræmi við veruleikann. Leita yrði annað eftir skýringum á þessum athöfnum glæpamanna en hjá stjórnvöldum í Rússlandi.