Fasteignaverð hefur haldið áfram að hækka á árinu og er það nú 12,1 prósent hærra fyrir ári og tólf mánaða hækkun þess hefur mælst yfir 5 prósent nánast samfleytt í 2½ ár. Þetta kemur fram í Fjármálastöðugleika, riti Seðlabanka Íslands.
Í inngangi ritsins segir Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, að verðfall gæti orðið á eignum um leið og það kemur slaki í þjóðabúskapinn. „Gangi spár um áframhaldandi hækkun eftir aukast líkur á verðfalli síðar komi bakslag í efnahagslífið,“ segir í innganginum.
Flestar spár gera ráð fyrir um 20 prósent hækkun fasteignaverðs fram á árið 2018, en töluverð vöntun hefur verið á litlum og meðalstórum eignum miðað við eftirspurnina.
Árshækkun raunverðs atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu var enn meiri en íbúðarhúsnæðis, eða 14,3 prósent á öðrum ársfjórðungi og hefur verið yfir níu prósent í rúm tvö ár, að því er segir í fjármálastöðugleika.
Raunverð íbúðarhúsnæðis er enn hæst miðsvæðis í Reykjavík en undanfarið hefur það hækkað hraðast í hverfum lengra frá miðborginni. Frá árinu 2010 hefur íbúðaverð innan Hringbrautar, í Vesturbæ og Hlíðum í Reykjavík hækkað um fimmtíu prósent að raunvirði og er nú um fimm prósent lægra en það reis hæst í lok árs 2007.
Í öðrum hverfum höfuðborgarsvæðisins hefur raunverð íbúða hækkað um 37 prósent að jafnaði á sama tíma. Raunhækkun íbúðaverðs miðsvæðis stafar að miklu leyti af því að íbúðir þar fengu „ný og verðmætari not í útleigu til ferðamanna“, segir í fjármálastöðugleika.
Samkvæmt vef Airbnb eru um þrjú þúsund eignir í útleigu í Reykjavík, og langflestar í miðborginni. Þessi miklu umsvif útleigu til ferðamanna má rekja til mikillar vaxtarins í ferðaþjónustu sem hefur verið undanfarin misseri.
Í ritinu segir enn fremur að eftirspurn eftir stærri og dýrari eignum hafi aukist nokkuð upp á síðkastið. „Undanfarið hefur eftirspurn aukist eftir nýju eða stærra húsnæði sem rekja má til viðvarandi hagvaxtar og eftir litlum íbúðum í ódýrari hverfum, sem m.a. má rekja til fólksfjölgunar. Íbúðarhúsnæði miðsvæði í Reykjavík er í auknum mæli nýtt sem gistiheimili fyrir ferðamenn. Framboð íbúðarhúsnæðis hefur því dregist saman sem því nemur og eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á öðrum svæðum hefur aukist. Viðvarandi hagvöxtur og fólksflutningar til landsins stuðla einnig að frekari hækkun fasteignaverðs. Hærra verð leiðir jafnan til aukins framboðs og sveiflan dempast með tímanum, en þá þarf að mæta eftirspurninni með uppbyggingu,“ segir í ritinu.