Íslensku flugfélögin WOW air og Icelandair bættust í hóp fjölda flugfélaga sem banna farþegum sínum að koma með Samsung Galaxy Note 7 síma um borð véla sinna, hvort sem farþeginn er með símann á sér, í handfarangri eða tösku sem sett er í farangursrými.
WOW tilkynnti þetta á Facebook síðu sinni í gærkvöldi og Icelandair sagði frá banninu á heimasíðu sinni. Í tilkynningunni kemur fram, að þeir sem reyni að ferðast með slíka síma til Bandaríkjanna og Kanada verði vísað frá borði.
Bandarísk samgönguyfirvöld bönnuðu símana um borð í bandarískum flugvélum um liðna helgi og fleiri flugfélög bættust í hópinn í gær. Þar á meðal Air Berlin, Virgin og Singapore Airlines. Bannið tekur strax gildi.
Samsung kallaði inn um tvær og hálfa milljón síma í síðasta mánuði eftir kvartanir viðskiptavina um að rafhlaða þeirra ætti það til að springa. Nýir símar voru þegar settir í framleiðslu en henni var síðan hætt fljótlega, þegar kom í ljósi að gallinn var alvarlegri en talið var í fyrstu.