Söluvöxtur Össurar nam ellefu prósentum á þriðja ársfjórungi þessa árs miðað við árið í fyrra. Salan nam 129 milljónum Bandaríkjadala, eða um 15,6 milljörðum íslenskra króna samkvæmt tilkynningu félagsins til kauphallar. „Sala á stoðtækjum var einstaklega góð og var drifin áfram af bionic vörum og vörunýjungum,“ er haft eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóri Össurar í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
„Í september festum við kaup á Medi Prosthetics, sem framleiðir og selur mekanísk stoðtæki á heimsvísu. Með þessum kaupum bjóðum við enn betra vöruúrval og styrkjum stöðu okkar frekar á stoðtækjamarkaðinum. Rekstraráætlun ársins hefur verið uppfærð vegna tímabundinna áhrifa frá nýlegum fyrirtækjakaupum sem og neikvæðum áhrifum vegna styrkingu íslensku krónunnar á framlegð fyrirtækisins," segir enn fremur.
Hagnaður nam 13 milljónum Bandaríkjadala (1,6 milljörðum íslenskra króna) eða tíu prósent af sölu.
Markaðsvirði Össurar er nú 178 milljarðar króna, en gengi bréfa félagsins hefur lækkað um 15 prósent á undanförnum tólf mánuðum.