Stjórnendur samfélagsmiðlarisanans Facebook ræddu um það sína á milli, í kjölfar þess að Donald Trump vann Hillary Clinton í forsetakosningunum í síðustu viku, hvaða hlutverk Facebook hefði spilað í kosningaúrslitunum. Frá þessu var greint í New York Times í dag.
Í umfjölluninni er vitnað til þriggja heimildarmanna sem sáu umræðurnar meðal stjórnenda fyrirtækisins. Lýstu þeir yfir áhyggjum sínum af því að Facebook hefði verið að dreifa misvísandi upplýsingum - og í mörgum tilfellum röngum - sem hefðu átt sinn þátt í kosningarúrslitunum. „Var þetta okkur að kenna?“ á einn þeirra að hafa sagt.
Málið er viðkvæmt fyrir Facebook og forstjórann og stofnandann Mark Zuckerberg, sem hefur ítrekað lýst því yfir að ritskoðunartilburðir séu ekki stundaðir innan fyrirtækisins.

Notendur Facebook eru 1,7 milljarður manna mánaðarlega um allan heim, og í Bandaríkjunum eru virkir notendur yfir 270 milljónir. Áhrif samfélagsmiðilsins á fjölmiðlaumræðu eru afgerandi mikil, en algengt er að umræða inn á fréttavefi komi um 60 til 70 prósent beint af samfélagsmiðlinum.