Jill Stein, frambjóðandi Græningja í forsetakosningunum í Bandaríkjunum, lagði gær fram formlega beiðni um endurtalningu atkvæða í Wisconsin ríki. Það er eitt þeirra þriggja ríkja þar sem afar mjótt var á munum milli Donald Trump og Hillary Clinton, en eins og alkunna er þá sigraði Trump í kosningunum, þrátt fyrir að Hillary hafi fengið meira en tveimur milljónum fleiri atkvæði enn hann. Trump fékk 61 milljón atkvæða, en Hillary ríflega 63 milljónir.
Donald Trump fékk meirihluta atkvæða í öllum ríkjunum þremur, Wisconsin, Pennsylvaníu og Michigan. Stein hefur sagst hafa gögn um það að rússneskir tölvuhakkarar kunni að hafa hagrætt úrslitunum Trump í hag, en
AFP fréttastofan greindi frá því í gær að kjörstjórn Wisconsin sé að undirbúa endurtalningu atkvæða um allt ríkið. Talningu eigi að vera lokið þrettánda desember í síðasta lagi. Stein hefur sagst einnig ætla að fara fram á endurtalningu í Michigan og Pennsylvaníu.
Stein segist hafa náð að safna 4,8 milljónum bandaríkjadala og stefnir að því að safna sjö. Hún hefur þar til á miðvikudag í næstu viku til að fara fram á endurtalningu í hinum ríkjunum tveimur.
Haukur Arnþórsson, sérfræðingur í rafrænni stjórnsýslu, sagði í grein á vef Kjarnans 24. nóvember síðastliðinn, að það væri mögulegt fyrir hakkara að hafa áhrif á rafrænar kosningar en möguleikinn væri þó lítill. „Fimmtán ríki í BNA reka kosningakerfi án pappírsslóðar. Sérfræðingar í tölvutækni hafa dregið í efa öryggi talningarinnar í þeim ríkjum í nýafstöðnum forsetakosningum og bent á að Clinton hafi komið verst út þar sem þau eru notuð. Þeir telja að hagræðing niðurstaðna geti numið 7%. Úrslit í Wisconsin, Michigan og Pennsylvania réðu niðurstöðum kosninganna og beinist athyglin því að þeim. Meðal sérfræðinganna eru áðurnefndur J. Alex Halderman og kosningaréttarlögmaðurinn John Bonifaz. Þeir hafa lagt til að kosningarnar verði kærðar og krafist endurtalningar og rannsóknar á framkvæmd þeirra [...] Afar ósennilegt er að endurtalning og rannsókn á kosningamisferli í rafræna kerfinu breyti niðurstöðum. Líklegast er að tortryggnin í garð þess aukist og lögð verði áhersla á pappírsslóð og talningu kjörseðla eftir á. Enda má rökstyðja að upplýsingatæknin ein og sér ráði ekki við verkefnið leynilegar kosningar,“ sagði Haukur meðal annars í grein sinni.