Óhætt er að segja að kosningasigur Donalds Trump hafi komið eins og vítamínsprauta fyrir hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum, og þá einkum og sér í lagi banka. Frá því 8. nóvember, þegar Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna, hefur virði hlutabréfa rokið upp.
Sérstaklega hefur síðasta vika á markaði einkennst af miklum hækkunum en á aðeins fimm viðskiptadögum hefur virði hlutabréfa hækkað um 5 prósent samkvæmt hlutabréfavísitölu Nasdaq.
Í viðskiptaritinu IBD Weekly er fjallað um stöðu mála á hlutabréfamarkaði og því velt upp hvort fjárfestar á markaði - einkum og sér í lagi hluthafar fjármálafyrirtækja - séu að reikna með því að langt tímabil mikilla hækkana sé framundan (Will Trump Unleash A New Bull Market?).
Er í umfjölluninni horft til þess að Trump vilji hafa sambærileg áhrif á fjármálamarkaði eins og Ronald Reagan hafði á níunda áratugnum. Þá var dregið úr eftirliti og ýtt undir fjárfestingu og hækkun eignaverðs með margvíslegum aðgerðum, ekki síst skattalækkunum á fyrirtæki. „Er að hefjast nýtt tímabil mikilla hækkana á eignum?,“ er spurt í umfjöllun IBD Weekly.
Í umfjöllun Bloomberg segir frá því í gær segir að hlutabréf í bönkum á Wall Street hafi hækkað um 300 milljarða Bandaríkjadala, eða um 34 þúsund milljarða króna, á aðeins 25 dögum. Svo virðist sem stærstu hluthafar stærstu fjármálafyrirtækjanna séu vissir um að Trump muni gera breytingar á regluverkinu sem nýtast bönkunum til enn frekari vaxtar og sóknar. Undir stjórn Baracks Obama hafa yfirvöld styrkt eftirlit með bönkum en Trump hefur lofað því að draga úr eftirliti.
Útfærðar tillögur frá honum liggja þó ekki fyrir.